131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[15:04]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem er náttúrlega alvarlegt eru ástæðurnar fyrir því að það skuli þurfa að hlera en ekki viðbrögð samfélagsins við afbrotum. Ég tel að það sé afar mikilvægt fyrir hv. þingmenn að fjalla um þetta út frá því sjónarhorni.

Aðeins út af innheimtu jöfnunargjalds vegna alþjónustunnar. Ég hafði of knappan tíma áðan til að nefna það en nú þegar hefur verið innheimt alþjónustugjald vegna Neyðarlínunnar. Símafyrirtækin eiga öll að greiða tiltekið hlutfall af veltu sinni vegna þeirrar mikilvægu þjónustu sem Neyðarlínan sinnir. Ef símafyrirtækin skila þessu ekki er innheimt með þeim ráðum sem eðlileg eru. Ég veit reyndar ekki nákvæmlega um það en með tilvísun til þess sem hv. þingmaður sagði virðist hafa þurft úrskurði skattyfirvalda til að ná því að innheimta þessi gjöld. Um það hef ég ekki frekari upplýsingar en aðalatriðið er að regluverkið sé skýrt. Út á það gengur sú breyting á fjarskiptalögunum sem við erum að fjalla um núna að hafa þessa hluti skýra og klára.