131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[15:09]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég var ekki miklu nær um ástæður þess að svona víðtæk heimild þurfi að vera í lögum. Mér finnst miður að það liggi ekki ljóst fyrir áður en frumvarpið kemur til umræðu. Ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á því að í umræðunni er ætíð verið að minnast á það, a.m.k. annað veifið, að tölvur og tölvutengingar og fjölmiðlar séu að renna saman. Menn fá þá upplýsingar sem hægt er að geyma langan tíma, t.d. um það á hvað fólk er að horfa, um tómstundir og eitt og annað. Mér finnst umhugsunarefni hvort menn eigi ekki að ræða þessar brýnu ástæður og koma með þær hingað. Hvað ef við værum t.d. að ræða um það að fá upplýsingar um þær bækur sem fólk fær lánaðar á bókasöfnum, það sé hægt að geyma það 1–2 ár fram í tímann? Þetta er svona svipað mál og við erum að fara yfir.

Það sem ég ætlaði að spyrja um í seinna andsvari varðar kostnaðinn. Mörg íslensk fjarskiptafyrirtæki eru ekkert mjög stór. Þessi kostnaður hlýtur að liggja ljós fyrir hjá ráðuneytinu áður en það fer að leggja kvaðir á fyrirtæki í landinu. Um hvaða kostnað er að ræða fyrir minni fyrirtæki sem eru að hasla sér völl? Það er fjarstæða sem fram hefur komið að það eigi að leysa málið með því að markaðsráðandi fyrirtæki taki að sér hlerun fyrir yfirvöld í viðkomandi litlum fyrirtækjum vegna þess að þá væri í rauninni verið að gefa markaðsráðandi fyrirtæki beinan aðgang að öllum rekstri fyrirtækisins. Það er barnaskapur að ætla sér að fara í þá hluti. Þess vegna hljóta yfirvöld að vera eitthvað búin að velta fyrir sér hver kostnaðurinn sé við að koma þessum búnaði upp.