131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[15:12]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það ber að undirstrika mjög rækilega að geymsla gagna er til að nýta þau ef dómsúrskurður kveður á um að svo sé heimilt og leyfilegt. Það er ekki þannig að það sé frjáls aðgangur að þessum gögnum eins og mátti ráða af ræðu hv. þingmanns.

Hvers vegna er þetta gert? Það er vegna þess að lögreglan hefur komist að þeirri niðurstöðu að GSM-símarnir séu notaðir til að skýla sér á bak við við ýmiss konar ólöglegar aðgerðir, sölu á fíkniefnum, alls konar dónasendingar til einstaklinga um GSM-símakerfin o.fl. Það er ekki að ástæðulausu sem ríkislögreglustjóri óskar sérstaklega eftir þessu en við, löggjafinn, verðum að gæta þess að það sé öryggi af þessu öllu saman og að hófs sé gætt. Það er algert grundvallaratriði.

Að sjálfsögðu liggur fyrir að það verður nokkur kostnaður fyrir símafyrirtækin. Við reynum að gera þetta eins hagkvæmt og kostur er með því að setja það skilyrði að markaðsráðandi fyrirtæki þurfi að vera tilbúið til að veita þessa þjónustu þannig að litlu fjarskiptafyrirtækin þurfi ekki að fjárfesta. Það er þá gegn tilteknu hóflegu gjaldi fyrir þá aðstöðu.

Ég held að það sé nauðsynlegt að hv. þingmenn geri sér grein fyrir þeim vandamálum sem fylgja notkun fjarskiptakerfanna og hefur leitt til þess að það er auðveldara fyrir lögbrjóta að athafna sig með því að nota GSM-símakerfið. Ég held að það hljóti að vera sameiginlegur vilji okkar þingmanna (Forseti hringir.) að auðvelda lögreglunni starf sitt til að vinna gegn lögbrotum með hjálp fjarskiptakerfanna.