131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[15:37]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að hæstv. ráðherrar fá kröfur úr ýmsum áttum um að gera ýmsa hluti. Í þessu tilviki er mjög skiljanlegt og eðlilegt að ríkislögreglustjóri geri þessa kröfu, eins og ég tók fram í ræðu minni áðan. Það er hins vegar skylda hæstv. ráðherra og um leið okkar sem tökum málið til meðferðar á Alþingi að tryggja að þegar við förum að slíkum beiðnum eða kröfum sé það gert innan eðlilegra marka.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég er ekki tilbúin að kvitta fyrir, a.m.k. eftir það sem ég hef heyrt hingað til við þessa umræðu málsins, að eðlilegt sé að verða við þessari kröfu þegar hún felur í sér að leggja þungar byrðar á einkafyrirtæki sem starfa á þessum viðkvæma markaði. Það getur þýtt ákveðin fjárútlát fyrir þessi tilteknu fyrirtæki. Eins erum við að tala um mál sem varðar friðhelgi einkalífs einstaklinganna og mér sýnist hugsanlega að gengið sé lengra heldur en nauðsyn krefur við að safna persónuupplýsingum. Allt eru þetta mjög stórir hagsmunir sem vega á móti þeim rannsóknarhagsmunum sem ríkislögreglustjóri telur nauðsynlegt að tryggja.

Auðvitað mun það á endanum verða samgöngunefnd sem fer ítarlega ofan í þessa þætti. Mér sýnist, virðulegi forseti, að ýmsum spurningum a.m.k. sé ósvarað hvað þessa þætti málsins varðar.