131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[15:39]

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Það má segja um frumvarpið sem hér er til umræðu, frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, að oft velti lítil þúfa þungu hlassi. Frumvarpið er sannarlega ekki mikið um sig, einungis 13 greinar að gildistökugreininni meðtalinni en felur í sér ansi stór mál og þau nokkuð mörg.

Í fyrsta lagi vil ég nefna það sem kalla mætti ýmis mál, svo sem ákvæðið um vernd fjarskiptastrengja í sjó, ákvæði um ótímabundið leyfi vegna þráðlauss sendibúnaðar, tilkynningar og þar fram eftir götunum, um gagnsæi kostnaðar og samræmda hugtakanotkun. Þetta eru allt eðlileg og sjálfsögð atriði öll sem gera ekki annað en styrkja fjarskiptaumhverfið.

Í annan stað hlýtur maður að fagna því að með þessu séu skyldur ráðandi fyrirtækja á markaðnum skýrðar og skerptar. Eins og við vitum var lengst af í fjarskiptasögu þjóðarinnar eitt fyrirtæki ráðandi og gerði það með myndarbrag. Með aukinni samkeppni hafa önnur fyrirtæki og þau nokkuð mörg ruðst inn á þennan stöðugt vaxandi markað. Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra er Síminn með 65% markaðshlutdeild á móti 35% hlutdeild annarra fyrirtækja og virðist hafa gengið hnökralaust, þótt ekki sé það hnökralaust með öllu. Það er því af hinu góða að enn frekar skuli skerpt á skyldum ráðandi fyrirtækja á markaði til að örva samkeppni og skapa frekari samkeppnisskilyrði en það er það sem þessi markaður þarf fyrst og fremst á að halda með hagsmuni heildarinnar í huga.

Í þriðja lagi má síðan taka undir það sem hæstv. ráðherra sagði um reikiákvæðið. Það er mjög mikilvægt að skerpa á því. Þó að reikiákvæði í gildandi lögum hafi gegnt hlutverki sínu með prýði og feli að sjálfsögðu í sér mikinn fjárfestingarsparnað þá er það einungis til bóta að skerpa á þeim ákvæðum þannig að þjóðin geti sparað fjárfestingu í stofnbúnaði. Það er í raun það sem býr á bak við ákvæðin um reikisamninga sem eru afskaplega mikilsverðir.

Í fjórða lagi, frú forseti, vil ég nefna það sem hér hefur nokkuð orðið til umræðu, þ.e. um skyldur fyrirtækja á fjarskiptamarkaði gagnvart lögregluyfirvöldum, svo sem krafan um skráningu eiganda síma, skyldu fjarskiptafyrirtækja til að veita lögreglu upplýsingar og þar á meðal skyldu þeirra varðandi hlerunarbúnað sem hér hefur nokkuð verið rætt um, og síðan skyldu til varðveislu lágmarksskráningargagna um fjarskipti í eitt ár. Hér hafa verið töluverðar vangaveltur um eignarhaldið á hlerunarbúnaði, hvort það skuli í höndum símafyrirtækjanna sjálfra eða hins opinbera og má með sanni segja að það séu nokkuð gild rök sem netverjar hjá Netfrelsi hafa haldið fram, að það sé eðlilegt að hið opinbera eigi þetta. Hins vegar má segja að það sé ekki óeðlilegt að hin stærri símafyrirtæki komi sér upp slíkum búnaði og frumvarpið gerir beinlínis ráð fyrir því að þau hleypi minni fyrirtækjum að þeim hlerunarbúnaði þannig að sú kvöð verði ekki hamlandi fyrir ný fyrirtæki sem koma inn á markaðinn.

Á hinn bóginn togast á það eðli netsins að vera frjálst og í raun villt í eðli sínu — það hefur falið í sér mikla upplýsingabyltingu um heim allan — og hins vegar takmarkandi ákvæði eins og hér hefur verið rætt um. Ég tel að persónuvernd sé gert nokkuð hátt undir höfði með þessu frumvarpi því að 7. gr. endar einmitt á því að fjarskiptafyrirtækjum skuli gert skylt að fara eftir þeim leikreglum sem Persónuvernd kann að setja. En að sjálfsögðu er eðlilegt að við í hv. samgöngunefnd förum rækilega yfir þann þátt.

Þótt ég deili auðvitað áhyggjum manna að því leyti að við megum aldrei ganga það langt að öryggi einkalífsins sé ógnað þá megum við hins vegar ekki gleyma því að lögregluyfirvöld eru í blóðugu stríði við harðsvíraða glæpamenn, sérstaklega í fíkniefnaheiminum. Á þeim vígvelli eru farsímar eitt aðalverkfærið eins og fram hefur komið. Ég tel að almennur vilji sé til þess á Alþingi að fara í stríð við fíkniefnaglæpamennina, þann stóra og miskunnarlausa heim sem fíkniefnaheimurinn er. Við megum ekki vera það varkár að við gefum fíkniefnaglæpamönnum algerlega lausan tauminn. Að því leyti get ég ekki annað en tekið undir að settar séu slíkar kvaðir á fjarskiptafyrirtæki, einfaldlega vegna þess að það er nauðsynlegt í þessari blóðugu styrjöld gagnvart fíkniefnaheiminum, hvort sem við það verður tæknilega ráðið eða ekki.Við megum ekki vera það varkár að við gefum fíkniefnaglæpamönnum algerlega lausan tauminn. Við eigum að styðja við lögregluyfirvöld í hinni miskunnarlausu styrjöld sem háð er úti í samfélaginu gegn fíkniefnaheiminum.

Að lokum, frú forseti, kem ég að langstærsta málinu í frumvarpinu og það er fjarskiptaáætlun. Eins og fram hefur komið hefur Síminn lengst af annast uppbyggingu fjarskipta með stjórnun sinni og sjálfstæði. En með sölu Símans og með aukinni samkeppni á þessu sviði er mjög mikilvægt fyrir stjórnvöld að lögfesta fjarskiptaáætlun, rétt eins og við gerum með vegáætlun og þar fram eftir götunum. Það tel ég standa upp úr frumvarpinu og hlýt að styðja að stjórnvöld skuli með Alþingi ætla sér að setja reglulega áætlun um uppbyggingu fjarskipta. Jafnmikilvæg og þau eru í nútímasamfélagi er gífurlega mikið framfaraspor og langþráður draumur að rætast að markvisst og kerfisbundið sé unnið að því samkvæmt áætlun að halda uppi öflugu og metnaðarfullu fjarskiptakerfi. Sú framkvæmdaáætlun sem rædd verður í næsta dagskrárlið ber þess einmitt vott að við ætlum okkur að hafa mikinn metnað og láta Ísland standast samkeppni við aðrar þjóðir hvað varðar fjarskiptamarkaðinn. Það tel ég vera langsamlega mikilvægast í frumvarpinu og styð heils hugar. Það þarf ekki meira um þetta að segja en við munum auðvitað fara rækilega yfir ýmis atriði í hv. samgöngunefnd.