131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[16:04]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Við í Frjálslynda flokknum erum mjög stolt af hinu opna bókhaldi okkar. Við viljum ekki kalla það skrípaleik, alls ekki, heldur teljum við að með því við séum við að fara fram með góðu fordæmi og séum að leggja ákveðinn þunga á það að hitt gangi ekki lengur. Ég lít á hið opna bókhald sem hreinskilna leið en ef hv. þingmaður vill kalla það eitthvað annað en það er býð ég hér með hv. þingmanni að koma á skrifstofu Frjálslynda flokksins og þá getur hann skoðað þetta ágæta bókhald hjá framkvæmdastjóra flokksins, Margréti Sverrisdóttur. Ég vona að hann sjái þá að þetta er eitthvað sem við leggjum mikla alúð við.

En hvað sem því líður og til að ekki sé verið að kalla þessa vinnu okkar sem við leggjum mikla alúð við einhvern skrípaleik vonast ég til að hv. þingmaður og aðrir þingmenn í stjórnarliðinu leggist á sveif með okkur sem viljum koma á lögum og eftirliti með bókhaldi og fjárreiðum stjórnmálaflokkanna vegna þess að það er nútíminn. Ef það gerist ekki á þessu kjörtímabili mun það samt gerast. Auðvitað eigum við að fara í þá vinnu og sameinast um það, frú forseti.