131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[16:34]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kemst ekki hjá því að koma upp í andsvar og gera athugasemdir við samlíkingu hv. þingmanns þar sem hann ber saman annars vegar það sem hann nefndi svarta kassann, sem er í flugvélum og er notaður til að leita eftir skýringum á óhöppum sem verða í flugi, við þann möguleika sem hér er skapaður með þessu frumvarpi þar sem verið er að hlera vegna afbrotamanna. Þá er verið að gera kröfur um geymslu gagna vegna þess að lögregla krefst þess og fær að undangengnum dómi aðgang að gögnum. Þetta er svo gjörsamlega ósambærilegt að það er óhjákvæmilegt annað en gera athugasemdir við það.

Í annan stað vek ég athygli á því að í dag eru þessi gögn öll geymd. Fjarskiptafyrirtækin geyma hvort eð er í tiltekinn tíma gögn vegna allra þessara samtala og fjarskiptanotkunar vegna reikningsgerðar. Með dómi er þá möguleiki á því, og fyrir því eru dæmi, að lögregluyfirvöld hafi aðgang að þessum gögnum, að undangengnum dómi eins og ég segi.

Hér er hins vegar verið að setja það skýrt í lög hvernig á að standa að þessu og ég tel að það hljóti að vera umhugsunarefni hvort á nokkurn hátt sé sambærilegt að nefna þetta tvennt í sömu ræðunni.