131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[16:37]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst alveg ástæða til að velta þessu fyrir sér. Flugmennirnir gerðu kröfu um það að samskipti þeirra yrðu ekki gerð opinber vegna einhvers konar rannsókna sem færu fram á slysum og ég tel að almenningur í landinu hljóti að eiga a.m.k. álíka rétt og flugmennirnir á flugvélunum hvað þessa hluti varðar. Þó að þessi fyrirtæki geymi gögn í einhvern tíma vegna þess að þau þurfa að skrá og búa til reikninga fyrir þjónustu sína hafa þau ekki leyfi til að nota þessi gögn, og það á að vera hægt að fylgjast með því hvort menn brjóta af sér hvað þetta varðar.

Hér er hins vegar sú hugmynd uppi að þessi gögn skuli geymd tiltekinn tíma í því augnamiði að það sé hægt að opna þau hvenær sem lögregla gerir um það kröfu. Ég held því ekki fram að það sé ekki hugsanlegt að menn komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé eitthvað sem eigi að verða. Mér finnst bara, og það voru orð mín, ástæða fyrir nefndina til að fara mjög vandlega yfir það hvort svo sé komið að það sé nauðsynlegt að menn gangi svona langt. Er ekki nóg að fá dómsúrskurð til að fylgjast með þeim aðilum sem lögreglan er búin að fá einhverja vitneskju um að ástæða sé til að fylgjast með í staðinn fyrir að fylgjast með hverjum einasta Íslendingi og safna upp gögnum um hann? Ég held að það sé alveg full ástæða til að stíga varlega til jarðar í þessu.