131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[16:39]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti. Nokkrar þær breytingar sem þar eru lagðar til eru að mínu viti til bóta. Í fyrsta lagi vil ég nefna að það verður bundið í lög að samgönguráðherra leggi fram þingsályktun um fjarskiptaáætlun líkt og gert hefur verið um samgönguáætlun þannig að þar séu dregnar fram áherslur, stefna og markmið í fjarskiptamálum. Það er til bóta. Okkur verður þó sjálfsagt nokkur vandi á höndum að gera slíka áætlun svo að raunhæft sé ef eitt meginfjarskiptakerfi landsmanna verður selt úr höndum þjóðarinnar eins og nú stefnir í. Fjarskiptin eru einn grunnþáttur í samfélagi okkar hvað varðar atvinnu, öll samskipti manna á milli og þróun, þá ekki hvað síst hefur þetta áhrif á búsetuskilyrði, samkeppnishæfni búsetu og atvinnulífs hvar sem er á landinu, þannig að þessi lög taka eiginlega til grunnþátta íslensks samfélags.

Síminn var á sínum tíma stórkostleg innleiðing á tækni sem hjálpaði til við að skapa möguleika fyrir samskipti, móta okkur sem heila þjóð, og einnig samskipti við aðila erlendis. Þetta er í sjálfu sér stórmál sem við erum að fjalla um. Það er hryggilegt til þess að vita að sú ógæfa skuli ætla að reka núverandi stjórnvöld áfram í að selja þetta grunnalmannaþjónustufyrirtæki sem Landssíminn er og hefur verið, selja hann úr höndum þjóðarinnar í stað þess að nýta styrk hans og afl til að byggja upp öflugt og enn öflugra þjónustunet í fjarskiptum. Að því leyti til eru lögin um fjarskipti mjög ólík lögum um t.d. vegi sem við tökum m.a. á í samgönguáætlun. Þar eru vegirnir í eigu þjóðarinnar, meginsamgöngumannvirkin, og sá aðili sem annast framkvæmd, viðhald og þjónustu á vegunum, Vegagerð ríkisins, er í eigu þjóðarinnar og starfar í umboði hennar. Að því leyti til er hér ekki saman að jafna ef fer fram sem horfir. Ef við bærum hins vegar gæfu til þess að hætta við sölu Landssímans, a.m.k. grunnfjarskiptakerfis hans, hefðum það áfram í þjóðareign, gætum við hæglega sett upp fjarskiptaáætlun og fylgt henni eftir. Þetta held ég að sé mjög mikilvægt að við höfum í huga þegar við ræðum þessi mál.

Við verðum að átta okkur á því hvað við erum með í hendi áður en við köstum því frá okkur og tökum síðan þeim afleiðingum sem það gæti haft í för með sér. Þó að við höfum talið rangt að markaðsvæða raforkukerfið þar sem raforkan er undirstöðualmannaþjónusta í samfélagi okkar völdum við samt að setja upp Landsnet sem annast dreifingu og flutning á rafmagninu á milli landsvæða og innan svæða og einnig dreifiveitur sem dreifa inni á ákveðnum svæðum. Stjórnvöld voru sett upp við vegg og þegar farið hafði verið nánar ofan í þær fyrirætlanir sem stjórnvöld höfðu uppi um einkavæðingu og markaðsvæðingu rafmagnsins ákváðum við að þetta skyldi þó vera áfram í opinberri eigu. Eftir alla einkavæðingardraumana í kringum rafmagnið sáu menn að sér hvað þetta varðaði, sáu að þetta væri ekki hægt og stofnuðu Landsnet um flutning og dreifingu á rafmagni.

Nákvæmlega sömu rök gilda að mínu mati um fjarskiptakerfið. Ýmsir aðilar á orkumarkaðnum áttu sitt eigið flutningsnet áður en þetta var sameinað í Landsnet. Þeir ákváðu í megindráttum að setja sitt flutningsnet inn í þetta sameiginlega Landsnet því að þeir sáu fram á að það væri mjög óhagkvæmt ef þjóðin væri að byggja upp tvöfalt kerfi í flutningskerfinu á rafmagni.

Nákvæmlega sama gildir um fjarskiptakerfið. Ýmsir eru að byggja upp fjarskiptakerfi, leggja fjarskiptanet, einkaaðilar, á arðsemisgrunni. En þeir leggja það eingöngu og alfarið á þeim stöðum og á þeim svæðum þar sem þeir sjá að þeir geta halað inn nægilegt fjármagn til þess að fá greiddan arð af þeirri fjárfestingu sinni. Þeir fjárfesta hvorki né veita þjónustu við t.d. dreifbýlli svæði þar sem þeir ná ekki sömu arðsemi út úr fjárfestingum sínum og haga sér bara eftir því hvar best er að fleyta rjómann. Landssíminn hefur haft þessar skyldur og þess vegna er mjög skrýtið núna þegar verið er að setja upp fjarskiptaáætlun og setja hér lög um fjarskipti að gera það þá undir því ljósi að verið sé að selja Símann. Manni hefði fundist nær að taka á þessum málum, setja stefnu í fjarskiptamálum ekki síst meðan þjóðin á Símann — við vonum að það verði sem lengst — og getur gert til hans kröfur, meðan ráðherra í umboði ríkisstjórnarinnar og Alþingis fer með eitt aðalhlutabréfið í Símanum og getur þess vegna beitt hann húsbóndavaldi þegar ríkisstjórn og Alþingi svo vilja. Enda höfum við þó séð að Síminn hefur skilað miklum arði eða milljarða kr. arði inn í ríkisbúskapinn án þess þó að því sé varið til fjarskiptanna sem hefði þó verið eðlilegt ekki síst í ljósi vanhugsaðra fyrirætlana um sölu á Símanum. Það hefði átt að nota þessi síðustu ár til þess að gera það.

Ég held að það sé mikilvægt, frú forseti, að hafa í huga í hvaða ljósi við erum að ræða þessi mál. Ég kem betur að þessum atriðum í umræðunni um næsta mál sem er tillaga til þingsályktunar um stefnuna í fjarskiptamálum. Þar fer ég ítarlega ofan í þessa þætti, þ.e. að umhverfi fjarskipta væri í allt öðru ferli og öruggara ferli ef þjóðin ætti áfram grunnfjarskiptakerfi Landssímans og gæti gert til þess eðlilegar kröfur og gæti gert áætlun um næstu skref í eflingu fjarskipta. Ef Landssíminn verður einkavæddur og seldur þá er ósköp litlar kröfur hægt að gera og ég kem að því hérna aðeins síðar.

Varðandi síðan þetta frumvarp um breytingu á lögum um fjarskipti þá hefur hér verið lögð áhersla á ýmis atriði. Ég vil fyrst nefna þetta fjarskiptaráð sem ætlunin er að stofna. Samgönguráðherra á að skipa fjarskiptaráð til þriggja ára í senn og síðan er tíundað hlutverk þess. Það á að vera samráðsvettvangur hagsmunaaðila um bætt fjarskipti o.s.frv. Það er svo sem margt gott um þetta fjarskiptaráð að segja. En því er haldið gjörsamlega opnu hversu margir eigi að vera í þessu ráði eða hverjir eigi að skipa það þannig að þetta er bara opið geðþóttaatriði sem ráðherra fer með. Ráðherra fær að ákveða að eigin geðþótta að því er virðist hvað hann ætlar að hafa marga í þessu ráði og hvernig þeim verður skipað.

Ég hef alltaf verið skeptískur gagnvart svona ráðum sem einhverjir útvaldir fá að sitja í, taldir vera fulltrúar einhverra hagsmunaaðila, því að um leið og maður velur einn þá er annar útilokaður. Oft eru þessi ráð skipuð með þeim hætti að þau eru mjög þröng og þau eru fyrst og fremst bara hagsmunagæsluráð einstakra fámennra hagsmunaaðila. Ég tel að það væri á margan hátt miklu eðlilegra að ráðherra bæri þessa ábyrgð og leitaði ráða hjá þeim sem hann telur nauðsynlegt á hverjum tíma. Hagsmunaaðilar, hvort sem það eru fjarskiptaaðilar, neytendur eða hverjir sem þeir eru, geta á hverjum tíma komið óskum sínum á framfæri við ráðherrann og þá hafa í rauninni allir þar jafnan aðgang. En ef skipað er svona ráð sem milliaðili þá er verið að lengja bilið á milli einstakra hagsmunaaðila, einstakra notenda og samtaka þeirra og ráðherrans og það tel ég rangt. Ég tel það rangt og ég tel að ráðherrann eigi bara að bera beina ábyrgð og eigi ekkert að vera að fá neitt svona ráð sem hann annaðhvort getur skotið sér á bak við ellegar fengið misgóðar hvíslingar frá. Ég tel að þarna sé allt of opin heimild og ónákvæm með þetta ráð. Hvorki er tiltekinn fjöldi eða tiltekið hverjir eigi að skipa það.

Hér hefur mikið verið rætt um hlerunarheimildir sem verið er að veita með þessu frumvarpi, þ.e. að skylda eigi öll fjarskiptafyrirtæki stór og smá, hvort sem þau eru með fjarskipti í gegnum síma, í gegnum tölvu eða annað, þ.e. öll fjarskiptafyrirtæki, til að koma sér upp hlerunarbúnaði. Þetta er að því er virðist hlerunarbúnaður sem nánast á að ganga daginn út og daginn inn til að safna gögnum sem skulu geymast í ár. Þá verður stöðug eyðing líka á móti að ári liðnu.

Mér finnst þessi árátta, hlerunarárátta, þessi njósnaárátta komin alveg hreint út í hreinustu öfgar. (Samgrh.: Hlerunar- og njósnaárátta?) Njósnaárátta, já, frú forseti. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt annað en kalla þetta njósnaáráttu því ef þetta væri forvitni, ef þetta væri í raun forvitni — ég ber virðingu fyrir forvitni, heiðarlegri forvitni, að vita um hagi nágrannans o.s.frv., þ.e. ef hún er heiðarleg. En þetta er ekki forvitni. Þetta eru njósnir hreint og beint. Þeim er hægt að beita í hvaða tilgangi sem er. (Samgrh.: Var það forvitni þegar þú varst að hlera sveitasímann?) Það var forvitni, já, og þá vissu yfirleitt þeir á næstu línum að það væri verið að hlusta. (Gripið fram í: Það var ekki bannað.) Það var ekki bannað. Mig minnir einmitt að í lögum sem við vorum að samþykkja fyrir tveimur eða þremur árum síðan hafi verið deilt um það hvort sérstaka heimild þyrfti til þess að taka upp símtöl. Þá var sett ákvæði inn um að það yrði að láta viðkomandi vita fyrir fram ef ætlunin væri að taka símtalið upp. Ég man ekki betur, frú forseti, en það hefði verið mjög mikið rætt þá hvernig og undir hvaða kringumstæðum mætti taka upp símtöl og það mátti alls ekki án þess að hlutaðeigandi vissi að verið væri að taka það upp og þá yrði að láta vita fyrir fram að ætlunin væri að taka það upp nema, eins og stóð í þeim lögum, ef viðkomandi mætti ætla að það væri föst regla að það væri gert.

En nú á að fara að taka upp skipulagðar hleranir á öllu þjóðlífi Íslendinga. En hvernig er þetta nú framkvæmanlegt, frú forseti? Margir eru farnir að kaupa svokölluð frelsiskort eða staðgreiða símtölin sín þannig að þau koma hvergi á skrá hjá viðkomandi fjarskiptafyrirtæki heldur eru þau greidd fyrir fram og staðgreidd þannig að ekki er hægt að rekja þau. Ég held að í auknum mæli fari fólk að staðgreiða fyrir fram símtöl sín og verði með svona frelsiskort.

Hvað með ferðamennina? Í frumvarpinu stendur að ekki megi afhenda venjulegum Íslendingi símkort nema hann sýni persónuskilríki, skírteini með mynd og kennitölu og öllu þess háttar. Hvers konar samfélag erum við að fara út í? Hvað eiga aumingja útlendu ferðamennirnir að segja þegar þeir ætla að fara að kaupa hér símkort og svo segir afgreiðslumaðurinn: „Heyrðu, ég þarf að fá hjá þér persónuskilríki og ég þarf að fá kennitöluna þína og ég verð að skrá þig því að þú ert stórhættulegur um leið og þú ert kominn inn í landið. Ég verð að fá að fylgjast nákvæmlega með þér.“ Hvernig á að framkvæma þetta? Ég er ekki viss um að hv. þingmenn yrðu hrifnir af því ef þeir erlendis væru að kaupa kort og yrðu þar að framvísa persónuskilríkjum og láta skrá sig á hálfgerða sakaskrá í viðkomandi landi til þess að mega kaupa símkort. Frú forseti. Einhvers staðar hljóta að vera takmörk fyrir því alvarlega rugli sem hér er á ferðinni.

Ég minntist á það hér fyrr í andsvari að við hefðum eðlilega hneykslast á leynilögreglunni í Austur-Þýskalandi á sínum tíma, án þess að ég hafi haft neina persónulega reynslu af því aðra en af umræðunni hér, þar sem sagt var að fjöldi fólks var að taka upp og fylgjast með ferðum fólks og hlusta á hvað það sagði samkvæmt bestu tækni þeirra tíma. Við hneyksluðumst á þessu. Eðlilega hneyksluðumst við. En svo hér, og árið 2000 liðið, erum við að fara í enn verra far við að hlera nágrannann.

Sé eitthvað gruggugt á seyði, eitthvað sem er ástæða til að fylgjast með, þá koma bara þar til bær stjórnvöld og óska eftir því að fá að fylgjast með, fá að hlera símtöl viðkomandi samkvæmt dómsúrskurði og borga þá þann kostnað sem því fylgir hjá viðkomandi fjarskiptafyrirtæki. Það er eðlilegt að mínu viti. En maður gengur ekki út frá því fyrir fram að allir Íslendingar séu glæpamenn og því þurfi að fylgja þeim eftir með þessum hætti og síðan eru þeir vinsaðir út að ári liðnu. Og hvernig fer sú vinsun fram? Hún var nú ekkert kræsileg lýsingin af þessum möppum sem lágu fyrir utan hús sýslumannsins í Reykjavík hérna á dögunum. Meðferð þessara upplýsinga og tilgangurinn með þeim verður náttúrlega að vera miklu ríkari en hér er verið að leggja til.

Frú forseti. Ég frábið íslensku samfélagi svona njósna- og hlerunaráráttu sem hér er komin á fullt skrið. Hana verður að stöðva.