131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[17:20]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri að hv. þingmaður er á þeim sömu nótum og ég var hér í ræðu minni um þessar ofboðslegu persónunjósnir sem verið er að setja í gang. Ég velti líka fyrir mér hvernig þetta væri hjá öðrum þjóðum þar sem þessi víðtæka notkun á kennitölum er alls ekki leyfð. Mér finnst hún ganga hér allt of langt, nánast að hver gjaldkeri í banka geti flett upp reikningsstöðu viðskiptavina í öllum öðrum viðskiptabönkum.

Hann minntist ekki á hvernig ætti að láta þetta virka í reynd, einmitt þar sem núna gilda ekki samræmdar reglur um heiminn. Ferðamenn koma hingað og þeir ætla að nota símann, þeir vilja kaupa hér símkort og eru þeir þá orðnir lögbrjótar ef þeir vilja ekki sýna eða geta ekki sýnt persónuskilríki? Hvernig ætlum við að safna þeim? Hvernig ætlum við að safna öllum þessu erlendu ríkisborgurum sem koma hingað til landsins?

Eða hvað gerist ef við kaupum okkur kort erlendis og hringjum hingað heim? Hvernig ætlum við að gera það? Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er stærðfræðingur og tölfræðingur og hefur velt þessu mjög fyrir sér. Hvernig eigum við að framkvæma þessa dellu? (Gripið fram í.) Ég spyr. Þótt það sé ekki sanngjarnt að spyrja hv. þingmann er gott að heyra sjónarmið hans af því að hann kom ekki inn á þetta atriði.