131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[17:23]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held einmitt að þarna sé atriði sem vanti inn í þessi lög og eigi að setja, þ.e. hvernig eigi að koma í veg fyrir að fyrirtækin geymi þessi gögn, safni þeim hreinlega. Það vantar inn í frumvarpið.

Hv. þingmaður var að velta fyrir sér hvernig við ættum að fara að ef erlendir ríkisborgarar kæmu inn í landið með tölvuna sína og símann sinn. Það er töluvert mikil skráningarvinna að skrá þetta allt saman við komuna til landsins ef þeir eiga síðan að geta farið og keypt frelsiskort á bensínstöðvum og eiga þá að framvísa einhverju nafnskírteini. Margar þjóðir eiga slíkt bara ekki til en hafa reyndar passann sinn, ella kæmust þeir ekki inn í landið.

Sjáið þið það fyrir ykkur að erlendir ferðamenn standi í biðröð við að kaupa símkort og verði að láta fletta upp um sig öllum persónuupplýsingum og skrá sig á íslenskan njósnaralista? Mér finnst það bara alveg fráleitt.