131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[17:38]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átti sæti í hv. samgöngunefnd á sl. ári og þar fjölluðum við um þær athugasemdir sem hæstv. ráðherra gerði að umtalsefni. Niðurstaða nefndarinnar var sú að flytja ekki tillögur um þær breytingar sem hæstv. ráðherra er að flytja tillögur um núna, sem hefur haft tíma til þess að skoða hlutina betur frá því að nefndin komst að þeirri niðurstöðu.

Varnaðarorðin sem hér hafa verið töluð bæði af mér og fleirum í dag eiga fullkomlega rétt á sér. Ég vísa til þess að á síðasta ári var herferð á vegum lögregluyfirvalda í landinu þar sem margir voru teknir með alls konar efni, klámefni, barnaklám og hvað það nú var allt saman, án þess að slíkt ákvæði væri til staðar. Ég held að full ástæða sé til þess að menn skoði sig vel um, það var það sem við sögðum flest til í dag, a.m.k. ég, áður en menn setja löggjöf um svo ríka söfnun persónuupplýsinga og verið er að leggja til að verði gert. Hæstv. ráðherra ætti að hægja svolítið á sér því að stundum geta menn farið fram úr sjálfum sér og þurfa þá að sækja stuðning til einhverra sem þeir eru ekki vanir að sækja stuðning til.