131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[17:40]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki heyrt af ræðu hv. þingmanns annað en að hann hafi tekið heilmikið mark á þeim athugasemdum sem fram komu hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur á sínum tíma. Ég geri engan mannamun þegar ég fjalla um skoðanir fólks og hvort ég eigi að taka mark á þeim. Ég tel það af hinu góða að nýta reynslu þingmanns á borð við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur til þess að fá frá henni hugmyndir og tillögur um úrbætur á viðkvæmri löggjöf. Ég tel að það sé fullkomlega eðlilegt og hef ekki á nokkurn hátt gefið í skyn eða það sé nokkurt tilefni til þess að efast um að ég sé reiðubúinn til þess að þiggja ráð frá svo reyndum þingmanni eins og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur.