131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[18:11]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Það sem stendur upp úr eftir þessa umræðu er að hæstv. samgönguráðherra hefur ekki svarað mjög mikilvægum spurningum með viðunandi hætti, í fyrsta lagi um kostnað vegna þessa eftirlits. Skiptir hann engu máli? Hvers vegna er því ekki svarað? Hefur kostnaðurinn ekkert verið kannaður? Ég benti á það fyrr í umræðunni að sum þessara fyrirtækja væru mjög smá og þess vegna hlýtur að skipta máli þegar hið opinbera leggur kvaðir á fyrirtæki hvað kvaðirnar kosta. Mér finnst það. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því.

Síðan er spurning sem hefur ekki komið fram í umræðunni: Hvaða þjóðir viðhafa viðlíka skráningu og fram kemur í þessu frumvarpi? Það hefur ekki komið fram. Það eina sem hefur komið fram er að þetta er ósk ríkislögreglustjóra og síðan hefur hæstv. ráðherra leitað stuðnings hér í umræðu á þingi hjá ágætum þingmanni sem var að ræða allt annað mál. Þó blandaðist þetta inn í.

Annað sem hefur þó komið fram í umræðunni og er vert að minnast á er að öll þessi njósnaskráning er ekki til að skrá eingöngu niður athafnir þeirra sem liggja undir grun, heldur er verið að skrá niður athafnir okkar flestra, allra landsmanna sem nota tölvur. Það yrði þá skráð hvert við hringjum, hvað símtalið stendur lengi, hvaða tölvum við tengjumst, allar tímasetningar, tímalengd og gagnaflutningar sem eru í gangi. Þetta eru umtalsverðar upplýsingar. Mér finnst vert að fara yfir þetta og vil að menn svari því berum orðum hvaða ástæður liggi að baki. Hvers vegna þarf skráningin og öll þessi upplýsingagjöf að vera svona mikil? Það hefur ekki komið fram.

Annað stendur hér út af. Í frumvarpinu kemur fram að þetta er lágmarksskráning. Hæstv. ráðherra hefur vikið sér undan því að svara hvort þá megi skrá eitthvað enn þá meira, og hvað megi þá skrá. Það er mjög mikilvægt að það komi hér fram. Ef við erum bara að tala um eitthvert lágmark og að það megi þá skrá eitthvað enn þá meira finnst mér það vera alvarlegt.

Eins og áður segir hefur hæstv. ráðherra ekki sótt leiðsögn til Evrópusambandsins, þetta er ekki vegna tilskipunar þaðan ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt í umræðunni. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki eitthvað í Evrópureglum sem kemur í veg fyrir að þessar kvaðir verði lagðar á fyrirtæki? Ef fyrirtæki sem veita sambærilega þjónustu í Evrópu þurfa ekki að skrá niður allt það sem upp er talið í frumvarpinu hlýtur að vera ákveðin mismunun, fyrirtækin standa þá ekki jafnt að vígi í samkeppni. Nú er netið á alheimsmarkaði og það er ekki hægt að líta bara fram hjá því og sópa því út af borðinu.

Ég hef undir höndum bréf frá Inter, samtökum þeirra sem veita þjónustu á þessu sviði, sem gefur til kynna að það sé ýmislegt í tilskipun Evrópusambandsins nr. 31/2000 um að það meini okkur mögulega að leggja þessar kvaðir á viðkomandi fyrirtæki. Það hefur komið fram að hæstv. ráðherra hefur ekkert hirt um að ráðfæra sig við Persónuvernd hvað varðar þetta frumvarp en þó mundi ég segja að til stæði að skrá mjög víðtækar upplýsingar á hvern og einn einstakling í þjóðfélaginu. Þá er í framhaldinu rétt að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi kynnt sér það hvort þetta frumvarp brjóti að einhverju leyti í bága við tilskipanir Evrópusambandsins.

Eins og áður segir hefur hæstv. ráðherra engu svarað til um kostnað og hann hefur ekki sagt okkur frá því hér í umræðunni hvort það sé heimild til að skrá eitthvað enn þá meira en lágmarkið sem kemur fram í frumvarpinu. Enn fremur hefur ekki komið fram hvort hæstv. ráðherra hafi skoðað það hvort sambærileg skráning fari fram í öðrum löndum. Mér finnst vera mjög mikilvægt að þetta komi fram í umræðunni.