131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Stefna í fjarskiptamálum 2005--2010.

746. mál
[18:43]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú ekki gott til gjörða ef allir heilbrigðisfulltrúarnir fara á þing, þá verður náttúrlega rottulaust Ísland ekki að veruleika.

En það liggur fyrir að við höfum að sjálfsögðu metið kostnaðinn við þau áform sem hér eru uppi. Annars vegar er um það að ræða að við gerum ráð fyrir því að það kosti um 900 millj. kr. að loka þeim götum á dreifikerfi GSM-kerfisins sem eru á fjölsóttum ferðamannastöðum og meginsamgönguleiðum. Jafnframt er talið að það kosti um 150 millj. kr. að koma á stafrænum sendingum um gervihnött til sjófarenda og þeirra sem búa í mesta dreifbýlinu. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að það verði fyrsti áfanginn í þeirri framkvæmdaáætlun sem gert er ráð fyrir.

Á hitt ber að líta, sem liggur ljóst fyrir, að við leggjum að sjálfsögðu aðallega traust okkar á samkeppni á fjarskiptamarkaði. Við leggjum traust okkar á að með sölu Símans og aukinni samkeppni á þessum markaði muni fjarskiptafyrirtækin keppast um að veita öfluga og góða þjónustu á forsendum þeirra áforma sem hér eru uppi en að sjálfsögðu verði reynt að lágmarka þau nauðsynlegu framlög sem kæmu úr Fjarskiptasjóði af hálfu ríkisins til uppbyggingar háhraðaneta.

Í mínum huga eru það fyrst og fremst fjarskiptafyrirtækin sem eiga að taka til hendinni (Forseti hringir.) enda er um frjálsan markað að ræða. En áformin í áætluninni eru alveg skýr.