131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Stefna í fjarskiptamálum 2005--2010.

746. mál
[18:50]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fyrri daginn virðist hv. þm. Jón Bjarnason alls ekki hafa áttað sig á því að við störfum innan hins Evrópska efnahagssvæðis. Við verðum að semja okkur að siðaðra manna háttum í viðskiptum á því svæði og fara að leikreglum.

Fyrsta atriðið sem ég vil nefna í því er að alþjónustan, sem markaðsráðandi símafyrirtækjum á hinu Evrópska efnahagssvæði er gert að sinna, er skýrt skilgreind. Við getum því ekki búið til einhverjar sérstakar reglur hvað þetta varðar á Íslandi.

Í annan stað af því að hv. þingmaður segir: Hvers vegna var ekki búið að gera allt þetta sem við leggjum á ráðin um í fjarskiptaáætluninni? Í fyrsta lagi var margt af því sem við gerum kröfur um í dag ekki til í fjarskiptum fyrir eins og þremur árum. Þess vegna segi ég að við þurfum auðvitað að gæta þess að fylgja þróuninni. Við getum heldur ekki, og það er partur af regluverki hins Evrópska efnahagssvæðis, skipað fjarskiptafyrirtækjum á samkeppnismarkaði að gera eitt eða gera annað. Þetta er viðskiptaumhverfi, samkeppnisumhverfi, sem um er að ræða. Það er því liðin tíð að samgönguráðherra geti gefið fyrirmæli um að eina símafyrirtækið í landinu eigi að gera hitt og þetta.

Ef ekki er um að ræða að framkvæmdir gangi upp á viðskiptalegum forsendum er ekki um það að ræða. Þess vegna förum við þá leið sem fjarskiptaáætlun gerir ráð fyrir.