131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Stefna í fjarskiptamálum 2005--2010.

746. mál
[18:52]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að fagna þeirri áherslu sem sett er á GSM-væðinguna í viljayfirlýsingu hæstv. ráðherra. Ég minni á að ég hef flutt þingsályktunartillögu í þrjú eða fjögur ár um þetta atriði og hún kemur nánast orðrétt þarna inn. (Gripið fram í: Er það ekki ágætt?) Það er mjög gott. Reyndar tel ég að hægt hefði verið að ganga til framkvæmda miklu fyrr og hefði verið sanngjarnt og eðlilegt að Landssíminn, sem var í meirihlutaeigu þjóðarinnar, hefði byggt upp GSM-þjónustuna, fíra aðeins niður arðsemiskröfunni og láta Símann byggja upp GSM-þjónustuna.

Hitt er svo hræsni að koma með áætlunina núna og ætla samtímis að selja Símann, eina tækið sem hægt er að beita til þess að gera þessa hluti. Hver annar á að gera það ef það ólán vildi til að Landssíminn yrði seldur? Hver annar á þá að framkvæma vilja ríkisins og hver á þá að borga? Þó stofnaður væri einhver tímabundinn sjóður fyrir andvirði Landssímans er hann bara tímabundinn, auk þess sem byggja á hátæknisjúkrahús, vegi og fjarskipti og greiða niður skuldir ríkissjóðs og bara nefndu það, allt fyrir sölu Símans. Það er því svo mikil hræsni að telja fólki trú um að allt sem ég hef hingað til gert ætli ég að gera með því að selja bestu mjólkurkúna úr húsinu.

Ég spyr: Hver á að framkvæma þennan vilja ríkisins? Hvaðan eiga peningarnir að koma, ef svo ólánlega vildi til að Síminn yrði seldur og búið væri að eyða söluandvirði Símans? Þetta er verulegt hræsnistal, herra forseti, því miður verð ég að nota það orð.