131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Stefna í fjarskiptamálum 2005--2010.

746. mál
[19:08]

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Það eru nýmæli að leggja fyrir þingið tillögu að stefnu í fjarskiptamálum. Ég tel að það sé til bóta að stjórnvöld marki sér stefnu í þeim efnum, eins og kom fram þegar við ræddum fyrr á þessum þingfundi um breytingu á lögum um fjarskipti. Þar er lagt til að sá háttur verði hafður á að setja stefnu til sex ára í senn í fjarskiptamálum.

Í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir er býsna margt sem hægt er að taka undir. Það eru háleit markmið um að koma á fót góðri þjónustu með miklum gæðum til allra landsmanna, hvort sem litið er til símasambands, tölvusamskipta eða útvarps og sjónvarps. Ef þessi markmið öll ganga eftir verða landsmenn allir býsna vel settir. Ég tel að það skorti í raun ekkert á metnaðinn í þeim markmiðum sem menn setja sér, það væri kannski frekar að menn gætu efast um möguleikann á að ná þeim fram á þeim sex árum sem menn ætla sér til starfans.

Ég vil því lýsa ánægju með markmiðin sem slík, sem eru tilgreind bæði í almennum orðum og að nokkru leyti með nákvæmari hætti í þessu þingskjali. Ég vil þó segja um það sem þar kemur fram að ég tel að menn þurfi að huga vandlega að því að styrkja þann hluta netsins sem er með þræði, ljósleiðara netsins. Það er augljóst mál að ljósleiðaratengingin er langöflugasta tengingin sem völ er á um þessar mundir og miklu öflugri en t.d. fjarskipti í lofti og það er ákaflega þýðingarmikið að samskipti geti farið a.m.k. eftir öllum aðalleiðum eftir ljósleiðarakerfinu. Sá hluti netsins er ákaflega þýðingarmikill og að sama skapi þýðingarmikið að hann nái sem víðast um landið.

Í þessu skjali kemur fram hver munurinn er á hraðanum á ljósleiðara eftir því hvort samskiptin eru flutt eftir ljósleiðara eða með öðrum hætti. Möguleiki er á því, t.d. sá sem nú þykir mjög góður víða um land, ADSL, og sem mörg minni byggðarlög sækjast eftir. Sum hafa fengið og önnur bíða. Samskiptahraðinn eftir ADSL-kerfinu annars vegar og ljósleiðara hins vegar er þannig að ef flutt eru gögn eftir ljósleiðara er það 1.250 sinnum hraðvirkara en ADSL-ið sem þó er líklega átta sinnum hraðvirkara en ISDN. Það skiptir miklu máli um möguleikana sem viðkomandi heimili eða staðir eiga kost á að menn geti flutt gögn eftir ljósleiðara, a.m.k. langleiðina að heimilunum.

Þess vegna legg ég áherslu á það, virðulegur forseti, að menn geri ráð fyrir því í þessum áætlunum að koma á ljósleiðaratengingu um allt land þannig að menn hafi hringtengingu, bæði til að hafa hraðann og öryggið, og mér sýnist á því að skoða kort af útbreiðslu ljósleiðarans að dálítið vanti á. Mér sýnist vanta annars vegar á Snæfellsnesi, að tengja ljósleiðara frá Stykkishólmi og að leiðara norður og vestur í land til þess að hafa þar hringtengingu fyrir byggðarlögin í Stykkishólmi, og hins vegar ljósleiðaratengingu frá Ísafjarðardjúpi, frá Súðavík yfir til Strandasýslu og þaðan niður að Brú í Hrútafirði til þess að staðirnir sem í hlut eiga á Vestfjörðum og í Strandasýslu annars vegar og á Snæfellsnesi hins vegar búi við sæmilega gott öryggi varðandi gagnaflutninga.

Í öðru lagi langar mig að spyrja, og bið hæstv. ráðherra kannski að upplýsa okkur um það síðar í umræðunni ef hann hefur tök á, um kostnað við að ná markmiðum sem hér eru sett og talin væntanlega raunhæf á næstu sex árum. Hingað til hafa þau verið talin óraunhæf vegna kostnaðar, eins og það að útvarpa og sjónvarpa um gervihnött fyrir landið allt og miðin. Það hefur oft verið rætt í þingsölum, sérstaklega að koma sjónvarpi á fiskimið landsmanna, en menn hafa talið ókleift að ná því fram sökum kostnaðar. Hefur eitthvað það breyst sem gerir það að verkum að kostnaðurinn er kannski orðinn viðráðanlegur og því raunhæft að stefna að því að ná þessu markmiði á allra næstu árum?

Ég vil svo, virðulegi forseti, undirstrika það að eitt er að setja sér markmið, sem eru háleit og eftirsóknarvert að ná og ég hygg að almenn samstaða sé um að stefna að, og hitt er að ná þeim fram.

Það er kannski það sem vantar á með þessa þingsályktunartillögu, það er ekki orð um það hvernig eigi að fjármagna (Gripið fram í.) markmiðin, hver eigi að leggja fram það fé. Ég sá ekki í þessu skjali einu orði vikið að kostnaðinum eða hvort í því fælist að ríkið mundi leggja fram eitthvert fé og hvernig ríkið hygðist þá gera það.

Við vitum það úr umræðunni um annað mál, sölu Símans, að menn hafa rætt um að leggja til hliðar í sérstakan sjóð ákveðna fjárhæð, sem ekki hefur verið tilgreint hvað verður há, til að standa straum af því að byggja upp ákveðinn hluta af fjarskiptanetinu, annars vegar GSM-samband um helstu þjóðvegi landsins og ferðamannastaði og hins vegar gagnaflutninga yfir á fleiri staði en nú er mögulegt, m.a. dreifbýli og minni þéttbýlisstaði. Það mun kosta töluvert fé en ég býst við því að hæstv. ráðherra sé með það í huga að sækja kostnað í þann sjóð sem samkomulag hefur orðið um milli stjórnarflokkanna að stofna. Ég vildi gjarnan fá það staðfest þannig að menn hefðu það í umræðunni að það væru áformin. Engu að síður er sá hluti málsins að efna og ná markmiðum ákaflega losaralegur í þessu skjali.

Virðulegur forseti. Mig langar svo að lokum að spyrja hæstv. ráðherra nánar, og biðja hann að fara yfir það ef hann hefur tök á: Hverjir eru þessir helstu stofnvegir landsins sem á að tryggja að GSM-síminn náist á? Það er talað um hringveg 1, en mun það ekki örugglega líka eiga við um Vestfjarðaveginn, þjóðveg 61 og þjóðveg 60?