131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Stefna í fjarskiptamálum 2005--2010.

746. mál
[19:26]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef áður látið það koma fram að ég tel að þau vinnubrögð sem þessi fjarskiptaáætlun eða þingsályktunartillaga um stefnu í fjarskiptamálum til tiltekins tíma, vísa á eða eru hluti af, séu jákvæð. Það er meira en tímabært að menn taki þetta mikilvæga svið þjóðlífsins sem eru fjarskiptin skipulega fyrir á þennan hátt og reyni að hafa einhverja meðvitund og stefnu og beita sér í því hvernig fjarskiptin þróast og af hvaða gæðum sú þjónusta er sem landsmönnum stendur þar til boða. Það er þeim mun mikilvægara því það eru að verða miklar breytingar í þessum efnum bæði tæknilega og rekstrarlega. Þessi starfsemi byggðist upp um áratuga og alda skeið á grundvelli einkaleyfa. Opinberar stofnanir veittu þessa þjónustu og þetta var skilgreint fyrst og fremst sem þjónusta, sem undirstaða undir aðra starfsemi en ekki sem atvinnurekstur eða gróðavegur. Þetta er nú allt saman á hverfanda hveli og miklum breytingum háð. Fjarskiptasviðið er og hefur á síðustu árum verið mjög undir sem enn eitt svið í samfélaginu þar sem einkavæðingar- og markaðsvæðingaröflin hafa meira og minna náð sínu fram og fært yfir á markaðstorg viðskiptanna, svið sem áður laut fyrst og fremst lögmálum opinberrar þjónustu.

Um það allt saman mætti margt segja en er auðvitað ekki tími til í stuttri þingsályktunartillögu. En það skyldi nú ekki fara svo að menn eigi eftir að sjá að það tapast í öllu falli ýmislegt sem kemur til frádráttar því sem þeir telja að e.t.v. vinnist í þessum efnum. Þegar upp er staðið þá er ég nú ekki búinn að sjá að lítil þjóð í stóru og strjálbýlu landi komi endilega til með að búa við betri og hagkvæmari þjónustu í þessum efnum með því að fara þá leið að reyna að láta markaðinn leysa þetta og lappa svo upp á ágalla hans og þar sem honum er áfátt og það sem hann ekki leysir með opinberu inngripi. Það er auðvitað það sem hér á að reyna að gera. Með viðamiklu regluverki með því að skilgreina kröfur um ákveðna þjónustu og með því að halda síðan úti umfangsmiklu eftirliti með markaðnum er ætlunin að þetta eigi að ganga upp. Reynslan sýnir að á því munu verða brotalamir og árekstrar. Þær þjóðir sem hafa prófað þetta og hafa orðið nokkurra ára, svo ekki sé sagt áratuga, reynslu af því að gera þetta, hafa sannarlega fengið að kynnast því að þetta er ekki allt saman tekið út með sældinni. Hinar fallegu kenningar fræðanna ganga ekki alltaf upp þegar þær reka sig á veruleikann. Það breytir svo engu að sumir eru svo djúpt sokknir í trúarbrögð á þessa aðferðafræði að þá er það veruleikinn sem er skakkur en ekki kenningarnar.

Auðvitað er einkarekstur á sviði fjarskiptamála ekki nýr af nálinni. Þannig var það mjög víða þegar fjarskiptin byggðust upp í árdaga. Þá voru einkaaðilar þar á ferð og í mörgum þróunarríkjum hafa einkaaðilar frá Vesturlöndum um áratuga skeið byggt upp þessa þjónustu, sumpart í umboði stjórnvalda í þeim löndum. Það gæti verið fróðlegt fyrir menn að kynna sér reynslu Suður-Ameríkuþjóða sumra af því að vestræn, amerísk og evrópsk símafyrirtæki komust þar víða í aðstöðu til að byggja upp og reka fjarskiptakerfi í skjóli einokunar. Þannig áttu t.d. sænskir aðilar að mestu leyti símann í Argentínu og mjólkuðu ekki lítinn arð úr landi um áratuga skeið út á þá eign sína og skildu svo kerfið eftir í rúst og áratugi á eftir tímanum hvað gæði varðaði þegar yfir lauk.

Ég held að þessi áætlun sé góðra gjalda verð og markmiðin eru falleg og að mjög miklu leyti fullnægjandi, en það vantar það sem við á að éta. Það er hverjum manni ljóst sem fer yfir þessa áætlun og markmið hennar að þetta eru bara falleg orð á blaði og það er algerlega skrifað í skýin hvernig stjórnvöld ná þessum markmiðum fram. Hvorki eru settir fram fjármunir né eru stjórnvöld að sækja sér sjálfstæða lagastoð til þess að tryggja að þessi markmið, tímasetningar og lýsingar á gæðum hinnar veittu þjónustu gangi fram. Við vitum af reynslunni að það er ákaflega krókótt og mikil fjallabaksleið að færa þennan rekstur eða þjónustu alfarið yfir á hendur einkaaðila og grípa svo inn í með fjárframlögum og reglusetningu og kröfum um þjónustu vegna þeirra annmarka sem auðvitað eru á því að markaður í samkeppni leysi viðfangsefnið, sérstaklega þegar kemur út á landsbyggðina, strjálbýlli svæðin, þar sem reksturinn er síður ábatasamur.

Á Íslandi mun verða mjög grimmileg fákeppni ef verður af sölu Símans sem nú er undirbúin. Tvíkeppni í besta falli verður hægt að kalla það, að langmestu leyti, á sviði fjarskipta. Reynsla okkar Íslendingar er ekkert sérstaklega góð af því að tveir og þó að það séu þrír aðilar sem skipti slíkum mörkuðum á milli sín og geti með auðveldum hætti samið þar vopnahlé og skammtað sjálfum sér álitlegan arð og verið áskrifandi að honum árum og jafnvel áratugum saman, eins og við þekkjum t.d. úr tilviki olíufélaganna.

Það má líka spyrja hvers vegna sumt af þessu hafi ekki verið gert. Hvers vegna er ekki sumt af því nú þegar í fullum gangi sem hér loksins lítur dagsins ljós í formi fallegra markmiða á blaði, án þess að því sé fylgt eftir með fjárveitingum eða öðru slíku? Hvers vegna er t.d. GSM-kerfið jafngötótt enn þá og raun ber vitni meðfram meginvegakerfinu og gagnvart þjónustuaðilum og íbúum t.d. í strjálbýli landsins? Á það hefur verið bent, um það hefur verið beðið síðastliðin mörg ár, að þarna væru tilfinnanleg göt á ferðinni sem stæði mönnum fyrir þrifum í uppbyggingu atvinnurekstrar, t.d. á sviði ferðaþjónustu, en það hefur ákaflega lítið gerst. Það er fyrst núna sem stjórnvöld hrökkva allt í einu upp þegar fara á að einkavæða Símann. Það skyldi nú ekki vera að þessar ályktanir hér væru að einhverju leyti yfirbót, ég vil ekki beinlínis kalla það kattarþvott en það orð kemur þó í hugann, vegna þess að menn átta sig auðvitað á því að framtíðin er ákaflega ótrygg og það gætir mikillar tortryggni í garð áforma stjórnvalda um einkavæðingu á þessu sviði. Sú einkavæðing er knúin fram í andstöðu við vilja meiri hluta þjóðarinnar sem vill líta á þetta sem þjónustu og vill tryggja þessa hluti með öðrum hætti.

Hæstv. ráðherra bendir á að sá tími sé liðinn sem stjórnvöld geti skipað fjarskiptafyrirtækjum í samkeppni fyrir verkum. Gott og vel. En sá tími er ekki liðinn meðan stjórnvöld eiga Símann og geta t.d. með því létta af honum arðgreiðslu í ríkissjóð á móti beitt honum sem tæki til að ná markmiðum sínum fram. Við erum með tækið í höndunum, við eigum það og við getum með einföldum hætti jafnað þá reikninga ef vilji væri fyrir hendi eða hefði verið fyrir hendi. Það hefur ekki verið gert og það er gagnrýnisvert.

Ég er ákaflega tortrygginn á og því miður svartsýnn á að þetta muni reynast auðvelt og létt verk ef menn fara þá leið sem hér á að fara, jafnvel þó að falleg fjarskiptaáætlun sé sett á blað að nafninu til, það er ekki það sama og að málin séu í höfn, og alveg sérstaklega tryggir hún ekki landsbyggðinni og öllum landsmönnum án tillits til búsetu jafna stöðu í þessum efnum þegar fram í sækir.