131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Stefna í fjarskiptamálum 2005--2010.

746. mál
[19:34]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem tekið hafa til máls í þessari umræðu fyrir þær undirtektir sem fram hafa komið í ræðum þeirra við þingsályktunartillögu þeirri sem hér er til umfjöllunar.

Fyrst vil ég rifja aðeins upp og minna hv. þingmenn, sem spyrja af hverju við vorum ekki búin að gera þetta og hitt og skipa Símanum til verka í þeim efnum, ekki síst vegna þess sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi síðast að við hefðum átt að beita Símanum til verka við uppbyggingu GSM-símakerfa o.s.frv., á það sem fram kemur í skýrslu stýrihópsins sem vann að undirbúningi þessarar þingsályktunartillögu og þeirrar áætlunar sem er til umfjöllunar, en í þeirri skýrslu segir m.a. á bls. 21 um samþjónustu, með leyfi forseta:

„Tilskipun Evrópusambandsins 2002/22/EB skilgreinir alþjónustu sem þá lágmarksþjónustu sem ákveðnum rekstraraðila tal- og gagnaflutninga er skylt að veita öllum notendum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu. Fyrrgreind tilskipun heimilar ekki að lagðar verði kvaðir á fjarskiptafyrirtæki til að veita þjónustu umfram alþjónustu. Því verður að leita annarra leiða vilji stjórnvöld útvíkka þann ramma.“

Þetta er afar mikilvægt ákvæði í allri þessari umræðu. Ég held að almenningur sem fylgst hefur með umræðunni um sölu grunnnetsins og sölu Símans og öllu því, þar sem menn hafa talað eins og það væri sjálfsagt og það væri hægt og það væri eðlilegt að beita Símanum alveg sérstaklega, vegna þess að ríkið ætti meiri hluta í hlutabréfunum, til þess að framkvæma tiltekna stefnu stjórnvalda. Það er algerlega morgunljóst að á grundvelli þeirra tilskipana sem ég vísaði til er það ekki fær leið, heldur er eina færa leiðin sú sem við leggjum til hér, m.a. með hugmyndafræðinni á grundvelli samþjónustu. Hver er hún? Jú, frekar en að taka arðinn út úr Símanum og setja hann inn þar aftur þar sem ríkissjóður er einn af hluthöfum í Símanum — við megum ekki gleyma því að fleiri eiga Símann, ég veit a.m.k. um tvo inni í þingsalnum núna sem eru hluthafar í Símanum, við verðum að taka tillit til þess — en við getum ekki raskað þessum markaði með þeim hætti að skapa Símanum forskot með því að greiða inn í hann hluta af arði ríkisins af hlutabréfi ríkisins. Það er óframkvæmanleg leið, vegna þess að með því er ríkið að skapa Símanum forskot umfram önnur fjarskiptafyrirtæki. Þá förum við þá leið, eins og t.d. með þéttingu GSM-símakerfanna á þjóðvegum landsins og fjölförnum ferðamannastöðum, sem við höfum prýðilega reynslu af að bjóða út þjónustuna.

Við höfum gert það á mörgum sviðum. Við höfum boðið út framkvæmdir í vegagerð, hafnagerð og á flugvöllum. Við erum að bjóða út þjónustu eins og rekstur ferja, Herjólfur er stærsta dæmið þar um, við erum að bjóða út þjónustu í flugi til jaðarbyggða. Við höfum ekki sett upp ríkisflugfélög. Nei, við höfum boðið út þessa þjónustu og þeir fá sem bjóðast til að framkvæma hana fyrir lægstan ríkisstyrkinn.

Sama verður upp á teningnum hjá okkur með þessari aðferðafræði á sviði fjarskiptanna. Við ætlum okkur að bjóða út GSM-fjarskiptaþjónustu á þjóðvegum og fjölförnum ferðamannastöðum á sömu forsendum. Þeir fá sem eru tilbúnir til að framkvæma verkið fyrir lægstan ríkisstyrkinn.

Ég tel að þetta sé langheilbrigðasta aðferðin. Þá röskum við ekki markaði. Við sköpum ekki samkeppnisforskot, við höfum þetta opið og gegnsætt og ýtum undir samkeppni á þessum markaði. Það er geysilega mikilvægt atriði og ég er alveg sannfærður um að þegar hv. þingmenn átta sig betur á þessari hugmyndafræði muni þeir fallast á þessa leið.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson velti fyrir sér stofnkostnaði við þær framkvæmdir á vettvangi fjarskiptanna sem blasir við að fara verður út í. Ég hef nefnt það áður í þessari umræðu að nú þegar eru það þrjú meginsvið. Það eru úrbætur á sviði GSM-símaþjónustunnar, úrbætur á sviði stafrænna útvarps- og sjónvarpssendinga um gervihnött, og úrbætur á netinu, þ.e. að háhraðatengingarnar verði bættar og sú þjónusta verði aukin um landið.

Ef ég byrja á því síðastnefnda þá er ljóst að við leggjum mjög traust okkar á að tæknin hjálpi okkur og hins vegar að fjarskiptafyrirtækin leggi sig fram um að veita þá þjónustu sem við gerum ráð fyrir að veitt verði, það er auðvitað grundvallaratriði, án þess að til þess þurfi að koma að vera með sérstaka styrki. Við gerum engu að síður ráð fyrir þeim möguleika og þess vegna hefur ríkisstjórnin gert ráð fyrir að stofnaður verði sérstakur fjarskiptasjóður sem taki til þessara verka. Kostnaðurinn við aðgerðirnar hvað varðar háhraðatengingarnar liggur ekki fyrir vegna þess að það er spurning hvar mörkin liggja á milli þess sem fjarskiptafyrirtækin gera sjálfviljug og án nokkurs atbeina og þess sem ríkið þarf með einhverjum hætti að koma að. Ég tel að það sé fullkomlega eðlilegt að við gerum þetta svona og fikrum okkur áfram inn í þá metnaðarfullu veröld sem við erum að marka hér með þessari áætlun.

Í annan stað eru hins vegar stafrænu sjónvarpssendingarnar um gervihnettina. Ríkisstjórnin hefur þegar tilkynnt þá ákvörðun sína að leggja 150 millj. kr. til þeirra aðgerða.

Í þriðja lagi er síðan gert ráð fyrir uppbyggingu á hringveginum þar sem ekki er farsímasamband nú þegar, á fjallvegum á hringveginum og helstu leiðum, t.d. eins og hringtengingin um Vestfirði og norðausturhornið og hringtengingin á Vesturlandi. Á þessum meginleiðum um fjallvegi og víða annars staðar sem ég ætla ekki að tilgreina í smáatriðum. Gert er ráð fyrir að það kosti u.þ.b. 900 millj. kr. að ná þessum áföngum sem yrði í rauninni alger bylting í GSM-símasamböndum. Við höfum lagt þetta niður fyrir okkur í krónum og aurum með þessum hætti. (Gripið fram í.)

Hvers vegna gerum við þetta ekki strax? heyrist utan úr sal. Ég var einmitt að rifja það upp í hliðarsalnum áðan, þegar verið var að kvarta undan því að við værum ekki búin að gera þetta allt, að í ágætu háskólaumhverfi norður í landi, nánar tiltekið norður í Hjaltadal, var dugnaðarforkur við skólastjórn og gerði margt en engu að síður er núverandi ráðamaður á þeim bæ í ani við að framkvæma og koma á margs konar starfsemi sem auðvitað hefði átt að gera í tíð þess fyrri. Það er bara partur af framvindunni hjá okkur að við gerum ekki allt strax og ekki síst á sviði fjarskiptanna vegna þess að þar er þróunin er svo hröð að við höfum ekki undan að áforma að taka upp nýja tækni vegna þess að það er umsvifalaust komin ný til skjalanna. Það þarf því að velja og hafna og gæta sín á að fjárfesta rétt.

Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun minni að fara ekki af stað með útboð á þriðju kynslóð farsíma á sínum tíma þegar verið var að því í Evrópu allri og ýmsir ágætir hv. þingmenn skömmuðu samgönguráðherrann fyrir að bjóða ekki út þriðju kynslóð farsíma og stórgræða. Morgunblaðið skrifaði leiðara og krafðist þess að samgönguráðherra færi strax í það að bjóða upp leyfi þriðju kynslóðar farsíma. Til allrar hamingju gættum við að okkur og fórum ekki þá leið eins og var gert úti í Evrópu þar sem símafyrirtækin reistu sér hurðarás um öxl með því að taka upp þessa tækni í boði ríkjanna sem veittu þessi leyfi og gátu síðan ekki selt. Við Íslendingar vorum svo heppnir að við fórum ekki þá leið. Við þurfum að horfa vítt um, gera áætlanir fram í tímann en reyna umfram allt að nýta okkur tæknina og láta hana fleyta okkur fram og hjálpa okkur við þessa uppbyggingu.

Virðulegi forseti. Ég held að ég sé búinn að fara yfir þau atriði sem hér var spurt alveg sérstaklega um. Ég vísa því algerlega á bug sem hv. þm. Jón Bjarnason talaði hér um, að hér væri haldlítið plagg. Pappír út af fyrir sig er ekki mikils virði, aðalatriðið er að þeir sem eru við völdin hafi skýra framtíðarsýn. Sú þingsályktunartillaga sem hér liggur fyrir er dæmi um það að stjórnvöld, ríkisstjórnin, hafa mjög skýra sýn á sviði fjarskiptamála og eru studd af þingflokkunum dyggilega. Ég fagna því alveg sérstaklega hvað viðbrögðin við þessari þingsályktunartillögu eru góð engu að síður og þakka hv. þingmönnum sem hér hafa talað fyrir það hversu góðan skilning í rauninni þeir hafa á þeim áformum sem hér eru uppi þó að góðar ábendingar og gagnlegar hafi komið fram í þessari umræðu eins og jafnan er.