131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Stefna í fjarskiptamálum 2005--2010.

746. mál
[19:47]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki miklu við þetta að bæta eftir það sem ég sagði í ræðu minni en mig langar að spyrja hæstv. samgönguráðherra út í það sem hann var að tala um, samþjónustuna, að bjóða út þjónustuna, ýta undir samkeppni og allt þetta til þess m.a. að þjóðvegakerfið allt saman verði GSM-vætt, ef svo má að orði komast: Hvað gerði það að verkum að þetta gat ekki gerst fyrir einu, tveimur, þremur eða fjórum árum? Hvað stoppaði hæstv. ríkisstjórn í að koma með þetta nýyrði, samþjónustu, og ætla að fara þá leið sem hér er verið að tala um?