131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Stefna í fjarskiptamálum 2005--2010.

746. mál
[19:53]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst hvað varðar það sem gerðist í Hrísey. Það liggur náttúrlega alveg ljóst fyrir að þar voru mjög framsýnir menn á ferðinni sem leystu sín mál sjálfir eins og hefur gerst mjög víða um land. Þeir hafa notið arðsins af því. Þeir voru að sækjast í þetta (KLM: Og borguðu úr eigin vasa.) og þeir hafa notið arðsins af þessari framsýnu ákvörðun sinni. Hins vegar mun þróunin væntanlega verða í þá áttina að kröfurnar verða meiri, m.a. kröfurnar um enn meiri hraða, þannig að væntanlega mun þeirra tími renna upp eins og annarra hvað þetta varðar.

Hvort ríkisstjórnin hafi tekið ákvörðun um að leggja þessa fjármuni til hliðar? Já, það liggur fyrir. Það var gefin út yfirlýsing um það, um leið og ríkisstjórnin tók ákvörðun um að selja hlutabréfin í Símanum og tilkynnti það var tilkynnt um þann ríflega milljarð sem færi í þetta.

Hins vegar vil ég ekki gera lítið úr því, eins og hv. þingmaður, að Alþingi sé tilbúið til að leggja fjármuni í framfaramál í gegnum afgreiðslu fjárlaga. (Gripið fram í.) Vil ég t.d. benda hv. þingmanni á ákvörðun um það að leggja fjármuni í framkvæmdina í Siglufjarðargöngunum.