131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[21:08]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér hefur hæstv. landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins mælt fyrir frumvarpi um einkavæðingu og sölu á Lánasjóði landbúnaðarins. Það er lýsandi dæmi um metnað — eða réttara sagt metnaðarleysi — ráðherrans fyrir þessum atvinnuvegi.

Ég vil í upphafi aðeins gagnrýna þau vinnubrögð sem ráðherrann hefur haft við framlagningu málsins.

Lánasjóður landbúnaðarins er í sjálfu sér félagslegt verkefni ríkisins og bænda. Þó að hann eigi að teljast í eigu ríkisins eru það jú bændur sem hafa átt þátt í að fjármagna hann og þess vegna er ráðstöfun á sjóðnum sem slíkum engan veginn bara einkamál ríkisins eða einkavæðingargræðgi Framsóknarflokksins. Maður hefði því getað ætlað að þessar hugmyndir yrðu lagðar fyrir bændur, yrðu t.d. lagðar fyrir búnaðarþing með formlegum hætti, þannig að samtök bænda hefðu getað fjallað um þær. Því er ekki að heilsa. Á nýafstöðnu búnaðarþingi var einungis greint frá því að verið væri að skoða lánasjóðinn, verkefnisstjórn eða hópur væri í að skoða stöðu sjóðsins, en hvorki neinar upplýsingar um þá skoðun né önnur gögn sem gætu skipt máli lögð fyrir þingið til að meta eða taka afstöðu til. Búnaðarþing var haldið 6.–10. mars og þá lágu ekki fyrir nein þau gögn sem ráðherra gæti lagt fyrir búnaðarþing til þess að meta stöðu sjóðsins, enda segir svo í ályktun þingsins, með leyfi forseta:

„Búnaðarþing 2005 hefur fjallað um málefni Lánasjóðs landbúnaðarins. Starfshópur sem landbúnaðarráðherra skipaði til að fara yfir málefni sjóðsins hefur ekki lokið störfum og eftir er að leggja mat á nokkur atriði sem lúta að því hvernig þörf landbúnaðarins fyrir lánsfé verði best mætt á komandi árum.“

Þarna kemur skýrt fram að þessi gögn liggja ekki fyrir þinginu þannig að það getur ekki metið neitt á grundvelli þeirra.

Síðan kemur, eins og hæstv. ráðherra vitnaði í, reyndar ekki í fyrri hluta ályktunarinnar, einungis í seinni hlutann, enda hélt hann að það passaði sér betur, með leyfi forseta:

„Það er skoðun þingsins að í ljósi gjörbreyttra aðstæðna á fjármagnsmarkaði verði tæpast forsendur til áframhaldandi innheimtu búnaðargjalds til lánasjóðsins.“ — Tæpast forsendur, það er ekki tekið dýpra í árinni en að segja það svona. Tæpast forsendur, það er ekki kveðið skýrt á um það.

„Verði það niðurstaða starfshópsins að við þessar aðstæður sé ekki mögulegt að halda áfram rekstri lánasjóðsins, leggur þingið þunga áherslu á eftirfarandi: Stærstur hluti þeirra lána sem bændur hafa tekið hjá sjóðnum er með breytanlegum vöxtum. Tryggja þarf hagsmuni og réttarstöðu skuldara lánasjóðsins ef rekstri hans verður ekki haldið áfram.“

Þarna er á engan hátt kveðið neitt á um eða samþykkt að eigi að leggja hann niður.

Síðan segir:

„Verðmætum lánasjóðsins verði ráðstafað til að styrkja lífeyrisréttindi bænda.“

Ég hef, herra forseti, rætt við bæði stjórnarmenn og búnaðarþingsfulltrúa sem komu að þessari tillögugerð og ályktun og þeir mótmæla því harðlega að í því felist að þeir séu að leggja til að lánasjóðurinn verði lagður niður, hvorki hafi þær forsendur legið fyrir þinginu — skrýtið, svo stutt síðan því lauk — að taka um það ákvörðun, né heldur hafi það verið rætt á nokkurn hátt. Mér finnst mjög langt seilst ef á að nota þessa ályktun m.a. sem röksemd fyrir því að leggja sjóðinn niður og selja hann eins og ráðherra leggur hér til.

Það er líka mjög fróðlegt að sjá skýrslu þessarar verkefnisstjórnar sem ráðherra vitnaði til. Í frumvarpinu stendur að verkefnisstjórnin hafi ráðið fyrirtækið Ráðgjöf og efnahagsspár ehf. Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ég hef aldrei heyrt það nefnt fyrr. Þetta er sjálfsagt vænsta fyrirtæki en það væri fróðlegt að fá að vita hjá hæstv. ráðherra hverjir eiga það og reka, bara svona til upplýsingar svo að það sé ljóst. Þetta fyrirtæki, Ráðgjöf og efnahagsspár ehf., var notað til að meta samkeppnisstöðu lánasjóðsins og fjalla um hlutverk hans og framtíðarhorfur.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna ekki var leitað til annarra aðila. Tökum t.d. hagþjónustu landbúnaðarins eða hagfræðideild Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Hvers vegna var ekki leitað til aðila sem hafa meiri sérþekkingu á störfum og þörfum landbúnaðarins en ég leyfi mér að draga í efa að fyrirtækið Ráðgjöf og efnahagsspár ehf. hafi? Ég spyr hvers vegna það hafi ekki verið gert og spyr líka hver reki fyrirtækið Ráðgjöf og efnahagsspár ehf. sem þykir svona merkilegt að það skuli vera valið til að gera slíka úttekt sem svo afdrifarík ákvörðun er byggð á, að einkavæða og selja lánasjóðinn. Það er margt í þessu vinnuferli sem setja verður stórt spurningarmerki við. Það læðist óneitanlega að manni grunur í þessu einkavæðingarferli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins á almannaeigum að ákvörðunin hafi verið tekin, herra forseti, fyrir löngu og síðan leiti menn allra ráða til að staðfæra hana og láta hana ganga upp. Það læðist að manni sá grunur í þessu ferli. (Gripið fram í: Hvaða grunur?) Að ráðherra hafi ekki unnið verkin sín.

Þegar litið er á stöðu sjóðsins þá er alveg rétt að hann virðist hafa verið rekinn á frekar metnaðarlítinn hátt undanfarin ár. Það kemur fram í skýrslunni að fjármögnun sjóðsins sé í formi skuldabréfalána sem hann hafi tekið og þau skuldabréf nemi allt að 15 milljörðum kr. eða einhvers staðar á þeirri stærðargráðu, og lánskjörin sem sjóðurinn hefur á þeim eru að viðbættu ríkisábyrgðarálaginu meira en sem nemur 6% vöxtum, sem er óeðlilega hátt miðað við vexti sem eru á markaði núna. Vel má vera að á sínum tíma þegar þessi lán voru tekin hafi það reynst óhjákvæmilegt, en ég spyr: Hefur verið látið á það reyna hvort ekki sé hægt að semja við eigendur þessara skuldabréfa um lækkun á vöxtum þegar vextir sjóðsins eru að meðaltali í kringum 4,5%? Mér finnst a.m.k. ólíklegt annað en að kaupandi sem kæmi að sjóðnum og keypti hann byrjaði á því að semja um þessi bréf.

Hvernig var það ekki með Spöl? Við ræddum um Spöl fyrr í vetur og þá var einmitt talið að ekki væri hægt að lækka gjaldið í Hvalfjarðargöngunum vegna þess að skuldabréfalánin sem hvíldu á göngunum væru bundin með háum vöxtum og ekki væri hægt semja um lækkun á þeim. En það reyndist þó hægt, bankastofnun gekk í málið og þau voru endurfjármögnuð og endursamið að einhverju leyti um þessar skuldbindingar. Maður veltir fyrir sér hvort þetta hafi verið reynt hér, herra forseti.

Það er ábyrgðarhluti þegar verið er með handarsveiflu einni saman, bara af einkavæðingarlöngun Framsóknarflokksins, að einkavæða og selja félagslegan sjóð eins og Lánasjóð landbúnaðarins, selja þar með 1. veðrétt að nánast öllum jörðum í landinu, selja samninga sem bændur hafa gert í þeirri trú að þetta væri sjóður, þetta væri stofnun sem lyti félagslegri forsjá í samstarfi ríkis og bænda. Svo kemur allt í einu einhver einkavæðingarráðherra sem sér það eitt að einkavæða og selja og selur (Gripið fram í.) þau samskipti sem þarna hafa verið gerð við bændur.

Staðreyndin er sú að lánasjóðurinn hefur gegnt gríðarlega miklu hlutverki. Lánareglur sjóðsins hafa verið fullkomlega gagnsæjar. Þar hefur ekki verið nein mismunun, bændur hafa átt jafnan aðgang að þessum sjóði, óháð búsetu, eftir settum reglum. Sjóðurinn hefur verið gríðarlega mikilvægur fyrir uppbyggingu landbúnaðar í landinu. Í viðskiptabönkum þar sem einungis er hugsað um hámörkun á arði á eigin fé er starfað á allt öðrum grundvelli en hjá þessum sjóði. Margir hafa einmitt reynt það nú með viðskiptabankana sem hafa komist í þá aðstöðu að geta deilt og drottnað. Þeir ráða og meta á sínum forsendum hvar lán eru veitt og á hvaða kjörum þau eru veitt, þeir ákveða það á sínum forsendum. Það eru því engar líkur til þess að bændur frekar en aðrir geti átt þar einhvern rétt eða samningsstöðu sem heild til lánskjara. Við þekkjum það líka og heyrum um það að sumar jarðir eða sumir bændur eru eftirsóttir til að ná þeim í viðskipti en aðrir ekki. Ég sé ekki fyrir mér að einkavæddur og seldur Búnaðarbanki í höndum viðskiptabanka sem eingöngu hugsar um arðsemi eigin fjár fari að taka á sig samfélagslegar skyldur með því að lána til bænda og bújarða á svæðum sem að mati bankans munu ekki skila hámarksarði af fjármagni hans.

Við skulum líka að skoða hvað hefur t.d. gerst í sjávarútveginum, viðskiptabankinn þar deilir og drottnar. Hann er farinn að stjórna því hvaða sjávarútvegsfyrirtæki fá að lifa og hvaða sjávarútvegsfyrirtæki eru látin deyja, því að fái þau ekki eðlilega fjármagnsfyrirgreiðslu hjá sínum banka hafa þau ekki góðan starfsgrundvöll. Þegar sami banki er kannski orðinn aðalfjármögnunaraðili á vinnslustöðvum í landbúnaði þá getur hann farið að stjórna því hvar hagkvæmast er að framleiðslan fari fram að hans mati. Þegar menn selja slík viðskipti með þeim hætti sem hér gæti orðið sjá menn ekki fyrir endann á því hvernig það færi.

Herra forseti. Mér finnst þetta mál illa undirbúið, verið er að koma aftan að mörgum bændum og reyndar landbúnaðinum í heild með flutningi þessa frumvarps. Ef það gengur svo eftir að lánasjóðurinn verði seldur er verið að koma aftan að bændum sem hafa treyst á hann sem lánasjóð sinn og veitt honum veð í jörðum sínum, 1. veðrétt. Við upplifum það að ýmsir aðilar stunda nú raðuppkaup á jörðum og eru auk þess að kaupa upp framleiðslurétt á mörgum jörðum án þess að búa á þeim. Sú umgjörð sem verið hefur landbúnaðinum ákveðin stoð og stytta og skapað honum traust er að bresta. Þegar svo líka á að selja Lánasjóð landbúnaðarins, sem veitt hefur lán á jafnræðisgrunni til bænda, tel ég að miklir óvissutímar séu fram undan fyrir íslenskan landbúnað við þær aðstæður að ástæðulausu.

Hitt er svo nauðsynlegt að endurskoða sjóðinn og aðlaga hann að öðrum þáttum. Ég hef einmitt lagt til, og reyndar við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, eins og kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að skoða ætti aðra möguleika varðandi framtíð sjóðsins. Skoða ætti hvort samreka mætti hann t.d. með Lífeyrissjóði bænda eða annarri fjármálastofnun þar sem hann hefði áfram ákveðið grunnfélagslegt hlutverk í að veita bændum lán. Það mætti afmarka lánshlutverk hans við ákveðinn grunnstuðning við búskap, við jarðakaup, við frumbýlinga. Það mætti finna honum slíka sérstöðu svipað og verið er að gera t.d. með Íbúðalánasjóð. Það gilda nákvæmlega sömu röksemdir varðandi Lánasjóð bænda og Íbúðalánasjóð að það eru nógir til að slást um feitustu bitana í að lána fjármagn, en ákveðnir hlutar landsins munu verða afskiptir ef svo fer. Íbúðalánasjóður hefur það mikla félagslega hlutverk að gera öllum kleift að hafa aðgang að lánum, óháð búsetu, og sama á einnig við um Lánasjóð landbúnaðarins, hann hefur haft það hlutverk líka.

Herra forseti. Ég tel að frumvarp þetta sé fullkomlega vanbúið, bæði er ekki hægt að keyra þetta mál áfram án þess að það sé gert í mun meira samráði við bændur og auk þess tel ég að kanna eigi miklu betur aðra möguleika fyrir sjóðinn til þess að bregðast við breyttum aðstæðum. Ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan viðskiptabankarnir fóru að bjóða fjármagn á lægri kjörum og það getur breyst. Og hvað varðar að útstreymi úr sjóðnum hafi verið mikið þá skilst mér að það hafi stöðvast núna á síðustu mánuðum. Hlutverk sjóðsins sem jöfnunaraðili til að veita lán vítt og breitt um landið á jafnréttisgrunni er óbreytt og maður sér ekki neitt í farvatninu sem kemur í staðinn fyrir þau verkefni sjóðsins verði hann seldur.