131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Staða Landspítalans.

[13:04]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Deilurnar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi undanfarið rýra traust á hinni mikilvægu þjónustu hans, og þjónusta við sjúklinga er ófullnægjandi. Sparnaðaraðgerðirnar undanfarin ár og deilurnar hafa slæm áhrif á heilsufar sjúklinga og ekki síður á heilsu og úthald starfsfólks spítalans sem býr við síaukið álag og erfiðari vinnuaðstöðu. Sjúklingar verða fyrir skaða eða mistökum á spítalanum, samanber nýlegt svar ráðherra til hv. þm. Ástu Möller. Ástandið ógnar öryggi sjúklinga. Það segir sig líka sjálft að það ýtir undir deilur þegar stöðugt er skorið niður og þrengt að. Starfsmönnum spítalans hefur fækkað og yfirvinna verið minnkuð til að mæta kröfum stjórnvalda sem hafa þá stefnu að fækka legudögum. Það eykur álag á starfsfólk sem er hrjáð af streitu eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær um áfallahjálp fyrir það.

Sparnaðurinn hefur orðið til þess að sjúklingar fá minni þjónustu en áður. Þeir koma inn veikari sem bráðatilvik og eru útskrifaðir fyrr en ella. Þetta hefur gengið vegna frábærs starfsfólksins sem leggur sífellt meira á sig, en það gengur vart lengur.

Uppsafnaður halli spítalans nú um áramótin var 1 milljarður. Þar af voru dráttarvextir 107 milljónir. Hvers vegna greiðir fjármálaráðuneytið ekki jafnóðum til spítalans svo komist sé hjá þeim dráttarvöxtum? Staða ríkissjóðs er þannig að það ætti ekki að skipta máli. Spítalinn fór 1% fram úr fjárheimildum á síðasta ári og rúmur þriðjungur framúrkeyrslunnar er dráttarvextirnir, 107 milljónirnar. Þarna tel ég illa farið með almannafé. Afköst spítalans hafa aukist, kostnaðarsamar nýjungar verið teknar upp, svo sem stofnfrumu- og nýrnaígræðslur, lyfjaverð hefur hækkað og farið fram úr því sem fjárlög gera ráð fyrir. Á föstu verðlagi var rekstrarkostnaður spítalans á síðasta ári nánast sá sami og árið 2000. Framlag til spítalans hefur minnkað á heildarfjárlögum þótt fólki hafi fjölgað á höfuðborgarsvæðinu, þjóðin sé að eldast og þjónustan hafi aukist. Þetta gerir það að verkum að mjög er erfitt að mæta sveiflum eins og flensufaraldrinum nú í byrjun árs þar sem margt eldra fólk lagðist inn, fjölgun fæðinga var um 4% í janúar og febrúar og komur á slysa- og bráðamóttöku jukust um tæp 10%. Vart er raunhæft að reka spítalann áfram á föstum fjárlögum í ljósi þessa. Landspítalinn verður að taka við öllum. Hann getur ekki sent sjúklinga annað og þjónar öllu landinu. Hefur hæstv. ráðherra fylgst með því hvernig þetta kemur niður á sjúklingunum og þjónustunni á spítalanum?

Nýverið lýsir parkinsonsjúklingur í Morgunblaðsgrein ástandinu á taugadeild spítalans. Þar segir m.a.:

„Sl. haust var vinnuumhverfi og aðbúnaður starfsfólks og sjúklinga talinn skelfilegur. Ókunnugum gesti fannst hann vera í sjúkraskýli á stríðstíma. Fólk ýmist sat eða stóð á ganginum, öll legurúm voru í notkun, nokkrir sjúklingar lágu í sjúkrarúmum á þröngum ganginum, fimm göngudeildarsjúklingum stóð aðeins til boða að sitja í stól á ganginum allan daginn, sérfræðilæknar ræddu einkamál sjúklinga úti í horni innan um gesti og gangandi og læknir með hóp læknanema var þar einnig á ferðinni. Vinnuálagið var mjög mikið og þrengslin yfirþyrmandi.“

Eftir lestur greinarinnar heimsótti ég deildina og fékk staðfest að svona ástand væri iðulega þar. Tugir parkinsonsjúklinga þarfnast lyfjastillingar þar reglulega og þeir þurfa næði.

Við sameininguna fækkaði rúmum úr 42 í 21 sem væri í lagi ef göngudeildarþjónustan væri viðunandi. Hún er hins vegar afleit í mjög litlu herbergi og sjúklingarnir sitja á ganginum. Fjórða hvert rúm er teppt af sjúklingum sem hafa lokið meðferð og ekki er hægt að útskrifa vegna skorts á hjúkrunarrýmum. Heilablóðfallssjúklingar eru þjálfaðir á ganginum. Sjúklingar leggjast aðeins inn sem bráðasjúklingar svo að ekki er unnt að taka inn af biðlistum og biðin lengist. Ég tel að starfsfólkið sé að gera kraftaverk á hverjum degi við þessar aðstæður en margt þess er að gefast upp á ástandinu, og lykilmenn jafnvel á förum.

Þetta er lýsing af einni deild á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. En er þetta einsdæmi, eða er það dæmigert?

Ég spyr hæstv. ráðherra: Mun hann taka á ástandinu á Landspítala – háskólasjúkrahúsi sem endurspeglast í umfjöllun fjölmiðla um deilur þar? Ef svo er, þá hvernig?

Hér er nú öll umfjöllunin, bara í einn mánuð. Greinilega hafa sparnaðaraðgerðir stjórnvalda bitnað á þjónustunni miðað við þessar lýsingar. Telur hæstv. ráðherra að allir sjúklingar fái þarna viðunandi þjónustu eða bitnar þetta verr á ákveðnum sjúklingahópum? Telur hæstv. ráðherra ástand eins og lýst er á taugadeildinni vera viðunandi? Að lokum, virðulegi forseti: Er lausn á útskriftarvanda spítalans í sjónmáli?