131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Staða Landspítalans.

[13:09]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Reykv. s. gerir nokkur atriði í rekstri Landspítala – háskólasjúkrahúsi að umræðuefni. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni og eðlilegt í alla staði, ekki síst þar sem málefni spítalans voru nokkuð til umræðu opinberlega fyrir nokkrum vikum.

Hv. þingmaður spyrt í fyrsta lagi hvort ráðherra ætli að taka á deilum og óánægju á Landspítala – háskólasjúkrahúsi sem endurspeglast hefur í umfjöllun undanfarið um stjórnkerfisvanda á spítalanum, og ef svo væri, þá hvernig.

Hér er gengið út frá því að stjórnkerfisvandi sé til staðar á Landspítalanum sem leitt hafi til deilna og óánægju. Er hér sennilega vísað til yfirlýsinga yfirlækna, hjúkrunarfræðinga og lyfjafræðinga. Rauður þráður í yfirlýsingum þessum er gagnrýni á svokallað sviðstjórakerfi spítalans. Rétt er að taka fram vegna umræðu um sviðstjórakerfið að því kerfi var í raun komið á á ríkisspítölunum fyrir tveimur áratugum, og fyrir tæpum 15 árum á Borgarspítalanum gamla. Kerfið var endurnýjað fyrir skemmstu og nokkrir talsmenn tiltekins hóps yfirlækna hafa haldið því fram að sviðstjórafyrirkomulagið standist ekki ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu. Þeir hafa kvartað undan sviðstjórunum eða dregið í efa faglega hæfni þeirra og gagnrýnt stjórn spítalans harðlega á opinberum vettvangi.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra staðfesti með lögmætum hætti skipurit spítalans fyrir margt löngu. Í því felst að skipuritið er í fullu samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu. Jafnframt er það svo að lýsing á hlutverki sviðstjóra í greinargerð með skipuriti á starfslýsingu sviðstjóra og lækninga frá 1. október 2000 er í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu. Opinberlega hefur verið látið að því liggja að sviðstjórar lækninga væru handvaldir og ekki gerðar til þeirra viðeigandi hæfniskröfur. Er í þessu sambandi rétt að taka fram að sviðstjórar lækninga eru valdir úr hópi yfirlækna og eðli máls samkvæmt gerðar til þeirra miklar kröfur, enda hafa þeir áður verið hæfnismetnir sem yfirlæknar.

Ég er þeirrar skoðunar að deilur af því tagi sem uppi voru á Landspítala eigi að leysa inni á spítalanum sjálfum og treysti því að stjórnendur og starfsmenn setji niður deilur sínar með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi. Ég veit ekki betur en að menn hafi fullan vilja til að tala saman. Lýstu forstjóri spítalans, formaður læknaráðs og formaður hjúkrunarráðs vilja sínum til að vinna markvisst að bættum samskiptum innan sjúkrahússins í sameiginlegri viljayfirlýsingu sem þeir sendu frá sér 8. apríl sl.

Hv. 4. þm. Reykv. s. spyr hvort allir sjúkir fái viðunandi þjónustu á Landspítalanum. Virðulegi forseti. Hv. málshefjandi gengur út frá því í spurningunum sem hún beinir til mín að fjárheimildir Landspítala hafi dregist saman. Talað er um aðhaldsaðgerðir, sparnað og hagræðingu. Það er rangt þegar því er haldið fram að spítalanum hafi verið gert að spara og hagræða undanfarin missiri. Heildarframlög með aukafjárveitingum hækkuðu t.d. frá árinu 2002 til ársins 2004 úr 21,4 milljörðum kr. í 25,5 milljarða í fyrra. Það er brýnt að menn hafi þessar staðreyndir hugfastar.

Það er hugsanlegt að hagræðing, sem er alls ekki það sama og sparnaður en umfram allt breytingar á þjónustu, geti í einhverjum tilvikum hafa haft áhrif á sjúklinga og starfsfólk en almennt talað fá sjúklingar góða þjónustu á Landspítalanum. Í alvarlegustu tilvikunum fá þeir þjónustu sem hvergi er hægt að veita annars staðar á landinu. Það er skoðun mín að sjúkir fái viðunandi þjónustu á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og ég treysti stjórnendum spítalans fullkomlega til að forgangsraða verkefnum þannig í rekstrinum að þeir fái þjónustuna sem þurfa á henni að halda.

Það er erfitt verk og tekur á að sameina tvo spítala í einn. Það reynir á stjórnendur og það reynir á starfsmenn Landspítalans. Á sama tíma hefur rekstur spítalans batnað og á sama tíma hefur starfsemin aukist umtalsvert sjúklingum til hagsbóta. Það er von mín að erfiðleikar af þessu tagi séu nú senn að baki og menn geti horft til framtíðar fremur en að láta tímabundna erfiðleika trufla sig. Mér finnst full ástæða til að þakka starfsmönnum fyrir þolinmæðina sem þeir hafa sýnt í sameiningarferlinu.

Hv. þingmaður spyr um taugadeildina sérstaklega. Þar voru mönnunarvandræði fyrr í vetur. Það er mikið álag á deildinni eftir viðræður stjórnenda og starfsmanna í liðinni viku en nú er unnið að því að fullmanna deildina og þegar hafa verið settar fram áætlanir um það hvernig það verður gert. Einnig verður hafin vinna við að skoða húsnæðismál deildarinnar með það í huga að efla dag- og göngudeildarþjónustu. Bind ég vonir við að þau áform sem mér hafa verið kynnt færi aðstæður á taugadeildinni í gott horf.

Síðan er spurt um svokallaðan fráflæðisvanda. Það er ánægjulegt að geta sagt frá því að það hefur dregið verulega úr þeim vanda, (Forseti hringir.) bæði með tilkomu Vífilsstaða og þar að auki er í undirbúningi bygging hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu (Forseti hringir.) sem munu væntanlega breyta þessari stöðu þegar þau koma í gagnið.