131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Staða Landspítalans.

[13:26]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Landspítali – háskólasjúkrahús er langmikilvægasta heilbrigðisstofnun þjóðarinnar og það svo miklu munar. Þetta er kjölfestustofnun, þar enda erfiðustu og sérhæfðustu verkefnin sem enginn annar aðili ræður við eða vill taka að sér í heilbrigðiskerfinu. Hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni til upplýsingar skal þó minnt á að næst Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi að stærð og getu kemur Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.

Þeim mun bagalegra er, herra forseti, að Landspítalinn skuli hafa búið við þær þrengingar sem raun ber vitni og sannanlegt er undanfarin mörg ár. Pex hér um einhverja milljarðahækkun til eða frá hefur lítið gildi þegar það er, þegar til kastanna kemur, umfang starfseminnar og þörfin sem að lokum stillir af hversu mikla fjármuni Landspítalinn fær. Af hverju er það? Það er vegna þess að hann getur ekki velt vanda sínum og verkefnum yfir á neinn, það er enginn ofan við hann til að senda verkefnin til. Þar er sem betur fer, enn þá a.m.k., engum úthýst þannig að að lokum verður Landspítalinn að glíma við þá hluti. Hann hefur ekki haft nægt rekstrarfé, dregið skuldahala lengstum undanfarin ár. Ýmsar deildir spítalans eru svo tilfinnanlega undirmannaðar að vinnuálag þar er að hrekja fólk í burtu, það er staðreynd.

Í þriðja lagi hefur sameining stóru sjúkrahúsanna á Reykjavíkursvæðinu orðið starfseminni mjög erfið eins og að henni var staðið, eins og hún var undirbúin, þ.e. ekki nógu vel og ekki með einhverri markvissri áætlun um það hvernig ætti þá að ná hagræðingunni fram. Að þessu leyti hefur sagan endurtekið sig frá sambærilegum tilraunum í nágrannalöndunum þar sem of illa undirbúnar sameiningar skila ekki því sem þeim er ætlað. Þær eru ekkert töfraorð ef áætlunin liggur ekki fyrir.

Það er óhjákvæmilegt að veita meira fé, það er óhjákvæmilegt að draga úr álagi á ýmsum deildum og það verður að ná tökum á stjórnkerfisvanda Landspítalans og skapa þar betri starfsmannamóral.