131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Staða Landspítalans.

[13:28]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Öllum má vera ljóst að sameining Landspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur er og hefur verið umfangsmikið verkefni og hefur haft og mun hafa áhrif á allra starfsmenn spítalans. Reynt hefur á alla þætti breytingastjórnunar. Því kemur ekki á óvart að einhverjir starfsmenn séu ósáttir, ekki síst þeir sem hafa staðið frammi fyrir hvað mestum breytingum á starfsumhverfi. Fram hjá því verður ekki litið og við því þarf að bregðast. Því er yfirlýsing forstjóra LSH og formanna lækna- og hjúkrunarráðs spítalans frá 8. apríl sl. mikilvæg en í henni felst að aðilar muni sameiginlega vinna að bættum samskiptum innan spítalans.

Fyrr í þessari viku fékk ég svar hæstv. heilbrigðisráðherra við fyrirspurn minni um öryggi sjúklinga á LSH og tengslin við mönnun innan hjúkrunar. Í svari ráðherra kemur fram að legutími sjúklinga hefur styst verulega á LSH á síðustu þremur árum sem þýðir að inniliggjandi sjúklingar eru almennt veikari en áður. Það felur í sér aukið álag á starfsmenn spítalans. Ábendingar starfsmanna á síðustu dögum styðja þetta.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem koma fram í svari ráðherra hafa stjórnendur spítalans brugðist við þessum breyttu aðstæðum með fækkun sjúklinga á hvern hjúkrunarfræðing á flestum legudeildum spítalans, þ.e. það eru færri sjúklingar á hjúkrunarfræðing en áður. Erlendar rannsóknir benda til þess að á bilinu 3–17% sjúklinga sem leggjast inn á sjúkrastofnanir verða fyrir óhappatilvikum og fylgikvillum vegna sjúkrahúsvistar, sem í mörgum tilvikum hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Almennt er þó talið að einn af hverjum 10 sjúklingum lendi í slíkum atvikum og ekkert bendir til þess að staðan hér á landi sé betri en annars staðar, en það verður að segjast að skráningin er ekki í nógu góðu lagi hjá okkur.

Vitað er að skipulag og verkferlar á sjúkrastofnunum og mönnun hjúkrunarfræðinga eru afgerandi þættir þegar öryggi sjúklinga er annars vegar. Mikilvægt er að stjórnvöld hafi hliðsjón af þessu þegar fjárveiting til sjúkrastofnana er ákvörðuð og stjórnendum sé það ljóst við skiptingu fjármagns innan stofnunarinnar.