131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Staða Landspítalans.

[13:30]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim sem tóku þátt í þessari umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svörin þó að ég hafi ekki alls kostar verið ánægð með þau svör sem hann gaf, m.a. hvernig hann ætlar að stilla til friðar á spítalanum. Deilurnar sem þar ríkja skaða starfsemina og það þarf að ríkja friður um svona mikilvæga starfsemi eins og er á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Þar er verið að vinna frábært starf við mjög erfiðar aðstæður, og enginn neitar því að menn hafa búið þar við mjög miklar aðhaldsaðgerðir eins og ég lýsti í fyrri ræðu minni. Það er líka staðreynd að á föstu verðlagi var rekstrarkostnaður spítalans á síðasta árið nánast sá sami og árið 2000. Við verðum auðvitað að bera þetta saman á föstu verðlagi.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hann raunhæft að spítalinn búi við föst fjárlög þegar hann getur ekki brugðist við sveiflum í þjónustunni eins og ég lýsti í ræðu minni áðan? Ég fagna því síðan að úrbætur eru fram undan á taugadeildinni og ástandið að lagast. Ég tel að þjónusta við sjúklinga eins og Guðmundur Guðmundsson parkinsonsjúklingur lýsir í Morgunblaðsgreininni sé óviðunandi þannig að þar verður að ráða bót á.

Virðulegi forseti. Við getum talað lengi og mikið um stöðuna á Landspítalanum en ég fagna því ef það á að fara að leysa útskriftarvandann sem hefur verið mikill á spítalanum. Það er nauðsynlegt til að hægt sé að veita þar viðunandi þjónustu til framtíðar.