131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl ráðherra.

623. mál
[13:42]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég fagna því sem fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra. Hann hvetur til þess að þetta mál verði tekið upp í forsætisnefnd og að forsætisnefnd væntanlega setji þá reglur varðandi þau atriði sem hér eru nefnd eins og fjármálaleg og stjórnmálaleg tengsl við fyrirtæki og fleiri atriði sem lúta að siðareglum alþingismanna sem þjóðþingin í kringum okkur hafa fyrir löngu tekið upp. Ég minni á að í fjögur ár hef ég flutt tillögu til þingsályktunar um að settar verði siðareglur fyrir alþingismenn. Á þessu þingi er sú tillaga flutt ásamt þingmönnum úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum þannig að ég hvet til þess að málið verði tekið upp í forsætisnefnd í samræmi við þá tillögu sem ég hef flutt.

Ég fagna því líka að loksins liggur fyrir skýrsla forsætisráðherra sem svar við skýrslubeiðni okkar í Samfylkingunni um fjármál stjórnmálaflokkanna sem hefur tekið eitt og hálft ár að svara. Ég vænti þess að hún verði tekin til umræðu á næstu dögum og þær hugmyndir sem koma fram hjá hæstv. forsætisráðherra.