131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl ráðherra.

623. mál
[13:45]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna eindregið yfirlýsingum hæstv. forsætisráðherra og vona að hér verði verkin látin tala en þetta ekki svæft í nefnd. Ég er sammála honum um að sömu reglur þurfi að gilda um þingmenn og ráðherra. Ég vona að þær reglur verði svo gagnsæjar að hér þurfi þingmenn ekki framar að leggja fram jafnpersónulegar og að mörgu leyti óþægilegar spurningar til einstakra samþingmanna eins og ég þurfti að gera hér á dögunum í tengslum við einkavæðingu Símans. Í Danmörku og Noregi gilda reglur af þessu tagi. Þar upplýsa menn um eignarhlut fyrir hálfa millj. kr. eða meira í fyrirtækjum, í hvaða stjórnum þeir sitja og ef þeir þiggja gjafir fyrir umfram 20 þús. kr. frá einhverjum aðila. Við hljótum að geta sett okkur slíkan ramma hér.

Sömuleiðis er það fagnaðarefni ef hér á að setja löggjöf um fjármál stjórnmálaflokkanna. Það er löngu tímabært að hreinsa andrúmsloftið og að stjórnmálaflokkarnir geri hreint fyrir sínum dyrum. (Forseti hringir.) Ég trúi því að við höfum ekkert að fela í þeim efnum. En skýrar reglur (Forseti hringir.) þarf til að forðast spillingu í þessu efni, virðulegur forseti.