131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Sveigjanleg starfslok.

691. mál
[14:09]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Það liggur að sjálfsögðu ljóst fyrir að starfsemi lífeyrissjóðanna er til stöðugrar umræðu og stöðugrar endurskoðunar. Það er nú þannig að aðilar vinnumarkaðarins hafa mjög mikið um það að segja hvernig starfsemi lífeyrissjóðanna er háttað. Aðilar vinnumarkaðarins hafa á undanförnum árum lagt mikla áherslu á viðbótarlífeyrissparnaðinn sem tæki til að auka þennan sveigjanleika og stjórnvöld hafa komið til móts við þessar óskir og atvinnulífið í heild sinni. Það eiga sér alltaf stað umræður um þessi mál milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Svo mun verða áfram.

Ég tel mjög mikilvægt að því er varðar allar breytingar að þá liggi fyrir skýr vilji atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar í þessu máli. Lífeyrissjóðirnir eiga við ákveðinn vanda að etja eins og kunnugt er þannig að ég vil ekki útiloka breytingar af þessu tagi eins og hér hefur komið fram. Ég vil taka það skýrt fram.

Ég benti einungis á að sá þrýstingur sem hefur verið í þessum málum á undanförnum árum hefur farið minnkandi. Ég tel að það sé ekki síst vegna þess að viðbótarlífeyrissparnaðurinn hefur komið til og á eftir að vaxa. Menn líta náttúrlega vonaraugum til þess í framtíðinni að geta búið við þann sveigjanleika sem hann býður upp á.