131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Sala á hlutabréfum í Landssíma Íslands hf. til almennings.

771. mál
[14:21]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég fagna því ánægjulega og skemmtilega framtaki sem hópur einstaklinga hefur sýnt með því að bjóða í Símann og mjög skemmtilegt hve þátttakan hefur orðið mikil í því. Hins vegar verður að benda á að menn geta ekki lofað hækkun á gengi fram í tímann eins og sums staðar hefur komið fram. Það er útilokað og eins er mjög varasamt fyrir einstaklinga að taka lán til að kaupa hlutabréf því það er áhætta í hlutabréfum og þarf að benda á það. Þó að menn horfi mikið til bankanna sem hafa farið í útrás og þess vegna hagnast mikið verða menn líka að hafa í huga að önnur dæmi eins og járnblendið, Landssmiðjan og fleiri hafa ekki gengið og gengið meira að segja illa. Menn sem kaupa í þessu þurfa því að átta sig á því að þetta er áhætta. En ég fagna framtakinu. Það er mjög skemmtilegt.