131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Flutningur launaútreikninga heilbrigðisstofnana frá landsbyggðinni.

631. mál
[14:29]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrirspurnin sem ég hef lagt fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra er um flutning launaútreiknings og launabókhalds heilbrigðisstofnana frá landsbyggðinni og hingað suður og hljóðar svo, með leyfi forseta:

1. Er áætlað að flytja launaútreikninga og launabókhald sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva frá landsbyggðinni í miðlægt kerfi?

2. Eru hugmyndir um að flytja önnur verkefni frá sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum landsbyggðarinnar til Reykjavíkur?

Virðulegi forseti. Ástæða fyrirspurnarinnar eru auðvitað áhyggjur fjölmargra forstöðumanna og starfsmanna sjúkrahúsa vítt og breitt um landið og heilsugæslustöðva sem óttast að verið sé að stíga fyrstu skref í að flytja launaútreikningana og kannski ýmislegt annað á eftir hingað suður í eitt stórt miðlægt kerfi. Með öðrum orðum virðist þetta eiga að ganga þannig fyrir sig að vinnuskýrslur verði sendar suður, reiknuð út laun, laun lögð inn hjá viðkomandi starfsmanni og launaseðillinn sendur í pósti frá Reykjavík. Ef til vill verða síðar stimpilklukkur viðkomandi stofnana beintengdar hingað suður.

Þetta er að mér skilst í hinu nýja kerfi ríkisins sem er bókhalds- og mannauðskerfi, þó ég skilji ekki almennilega það nafn. Þetta virðist vera einhver miðstýringarárátta og miðstýringarkerfi og kom fram í einni ríkisstofnun þar sem þingmenn Norðausturkjördæmis voru að funda í morgun að þar hafa þeir ekki séð útprentun reikninga eða bókhalds síðan í mars 2004 eftir að kerfið var tekið upp.

Virðulegi forseti. Það getur líka gerst með þessu að „fjárráðin séu tekin af forstöðumönnum stofnananna“ vítt og breitt um landið, sérstaklega á landsbyggðinni vegna þess að þetta eru 70–80% af rekstrarkostnaði stofnananna og þeir hafa ekki lengur pening til að velta eins og gert hefur verið hingað til í 15 og upp í 20–30 daga. Þetta er ástæðan fyrir því að fyrirspurnin er lögð fram.

Um áramótin 2002–2003 voru stjórnir sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva lagðar niður og stjórnin flutt suður. Nú virðast mér launaútreikningarnir vera fluttir suður, síðar kannski bókhaldið og fólk óttast að þetta séu aðeins fyrstu skref í frekari flutningi suður í miðlægt kerfi frá stjórnun sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva í formi starfshóps sem þar vinnur.