131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Flutningur launaútreikninga heilbrigðisstofnana frá landsbyggðinni.

631. mál
[14:32]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Launakerfi ríkisins og BÁR, bókhalds- og áætlanakerfi ríkisins, voru orðin gömul kerfi. Launakerfið var að stofni til frá árinu 1976 og BÁR-kerfið frá 1986. Þrátt fyrir að bæði kerfin hafi reynst traust og áreiðanleg hafa þau ekki fylgt örri tækniþróun. Í þau vantar ýmsa kerfishluta sem nú þykir nauðsynlegt og sjálfsagt að slík kerfi bjóði upp á. Má þarf nefna kerfi eins og starfsmannakerfi, verkbókhald og birgðakerfi. Í ljósi þessa og þarfa ríkisstjórnar fyrir samstæðar upplýsingar til að hafa heildarsýn yfir ríkisreksturinn var tekin ákvörðun um endurnýjun launa- og fjárhagskerfa ríkisins.

Innleiðing nýrra fjárhags- og mannauðskerfa fyrir ríkisstofnanir stendur yfir. Af hálfu fjármálaráðuneytisins hefur sú ákvörðun verið tekin að allar stofnanir ríkisins fari í hið nýja mannauðskerfi. En þess ber að geta að fyrir eru í gamla launakerfinu allar stofnanir ríkisins að frátöldum hluta heilbrigðisstofnana, þ.e. Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og heilbrigðisstofnunum úti á landi eða þar sem sjúkrahús og heilsugæslur eru rekin saman í einni stofnun. Sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvar um land allt, Landspítali – háskólasjúkrahús og aðrar ríkisstofnanir sem tilheyra heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu eru fyrir í miðlægu launakerfi ríkisins.

Innleiðing hins nýja mannauðskerfis hefur ekki í för með sér flutning verkefna frá stofnunum enda fer öll skráning og úrvinnsla fram í stofnununum sjálfum. Hvað mannauðskerfið varðar mun öll launavinnsla og allt launabókhald eftir sem áður fara fram í hverri stofnun fyrir sig. Sú breyting verður hins vegar á með innleiðingu kerfisins að prentun launaseðla og útsending launaseðla fer fram miðlægt fyrir allar ríkisstofnanir. Það verður því breyting á varðandi útprentun og útsendingu launaseðla hjá starfsfólki Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, St. Jósefsspítala Hafnarfirði og heilbrigðisstofnunum úti á landi þar sem sjúkrahús og heilsugæsla eru rekin saman í einni stofnun.

Útprentun og útsending launaseðla alls annars starfsfólks ríkisins hefur fram til þessa verið miðlæg og verður það áfram. Gildir það til að mynda um starfsfólk skóla, sýslumannsembætta og stofnana fatlaðra. Þess ber að geta að engin breyting verður á framlögum stofnana vegna innleiðingar þessarar nýju fjárhags- og mannauðskerfa.

Síðan er spurt: „Eru hugmyndir um að flytja önnur verkefni frá sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum landsbyggðarinnar til Reykjavíkur?“

Með vísan til fyrra svars fylgir enginn tilflutningur verkefna innleiðingu nýrra fjárhags- og mannauðskerfa. Það hafa ekki verið áform um flutning verkefna frá heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni til Reykjavíkur.