131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Flutningur launaútreikninga heilbrigðisstofnana frá landsbyggðinni.

631. mál
[14:36]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svör hans við þeim spurningum sem ég hef sett fram. Ég skil svör hans þannig að ekki eigi að færa vinnu, störf eða verkefni, frá heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum yfir í miðlæga miðstýringarkerfið í Reykjavík. Ég fagna því og hvet til að menn standi vörð um þá nærstjórnun, ef svo má að orði komast, sem er í heilbrigðisstofnunum víða úti á landsbyggðinni. Ég er þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að það sé betra að stjórna því í nálægð fremur en stjórnin sé langt frá.

Ástæðan fyrir þessari fyrirspurn, virðulegi forseti, var m.a. sú að framkvæmdastjórum heilbrigðis- og sjúkrastofnana var kynnt að þetta yrði óbreytt. Það kom seinna upp að það væri ekki tæknilega hægt að hafa þetta í því kerfi sem það hafði áður verið og þess vegna væri þetta gert nú.

Ef til vill, virðulegi forseti, er þetta allt saman eftir kröfum frá fjármálaráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytið sé frekar máttlaust að sporna gegn því að svo verði. En ég ítreka að ég fagna því sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sagt, að þetta eigi ekki að verða til að færa störf, starfsemi eða eftirlit, frá landsbyggðarsjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum hingað til Reykjavíkur. Ég vona að það muni t.d. ekki koma upp að reikningar sem greiða á á viðkomandi stofnunum verði settir í eitthvert rafrænt form, sendir suður og greiddir þar. Ég óttast að þá haldi þetta áfram smátt og smátt þar til hið opinbera kemur og segir: Nú er búið að færa svo mikið suður í hið miðlæga „glæsilega“ kerfi að nú getum við fækkað störfum eða minnkað vinnuna á þessum stofnunum úti á landi. Það yrði miður.