131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Reiðþjálfun fyrir fötluð börn.

757. mál
[14:41]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Mér er það glöggt í minni, frá landsmóti hestamanna 2002 sem fór fram í Skagafirði, þegar Önnu Bretaprinsessu var færður hestur að gjöf með þeim orðum að hann væri ætlaður til þjálfunar fatlaðra barna í heimalandi hennar. Þetta var ekki í fyrsta sinn og örugglega ekki í síðasta sinn sem sérstakir eiginleikar íslenska hestsins voru dregnir fram með þessum hætti.

Við Íslendingar erum stoltir af íslenska hestinum og erum meðvitaðir um fjölþætta eiginleika hans og notkunarmöguleika. Íslenski hesturinn þykir sérlega vel fallinn til reiðþjálfunar fatlaðra og ræður þar bæði bygging hans og eðliseiginleikar. Hann er fremur smávaxinn með góða lund og ólíkar gangtegundir hans eru gagnlegar við hæfingu og þjálfun fatlaðra. Þessum sérstöku notkunarmöguleikum hans í þágu fatlaðra hefur hins vegar ekki verið hampað innan lands né stuðst við þróun þeirra svo kunnugt sé.

Reiðþjálfun er viðurkennd meðferð innan sjúkraþjálfunar og er henni beitt víða um lönd. Sjúkraþjálfarar hafa sérmenntað sig til að beita slíkum aðferðum. Heilbrigðiskerfi ýmissa nálægra landa taka með ýmsum hætti þátt í að greiða reiðmeðferð. Þannig er reiðmeðferð viðurkenndra reiðþjálfara greidd að fullu í Finnlandi og fyrir ákveðna sjúklingahópa í Danmörku. Svíar greiða fyrir meðferð barna í reiðþjálfun og í Noregi greiðir Tryggingastofnunin reiðmeðferð eins og fyrir aðra sjúkraþjálfun í hóp.

Erlendar rannsóknir benda til þess að reiðþjálfun hafi áhrif á hreyfifærni með ýmsum hætti. Hún eykur hreyfifærni í neðri hluta líkama og samræmir vöðvasamdrætti auk þess sem hún verkar á stjórn og jafnvægi líkamans. Rannsóknir á börnum með heilalömun benda til þess að reiðþjálfun bæti m.a. líkamsbeitingu, göngugetu, minnki vöðvaspennu, auki jafnvægi, minnki orkunotkun og bæti grófhreyfifærni þeirra. Sýnt hefur verið fram á að reiðþjálfun fatlaðra barna hafi ekki aðeins góð áhrif á líkamsburði og líkamlega færni barna heldur virki hún einnig hvetjandi á börnin vegna þeirrar ánægju sem þau fá út úr slíkri þjálfun.

Síðustu sumur hafa sérhæfðir sjúkraþjálfarar beitt reiðþjálfun fyrir fötluð börn, m.a. í sumarbúðum Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í Reykjadal, með það að markmiði að auka líkamlega getu og vellíðan þeirra með afar góðum árangri og með sérstakri ánægju þeirra. Ég tel ástæðu til að vekja athygli á þessum sérstöku notkunarmöguleikum íslenska hestsins og hvernig nýta má hann sem tæki í sjúkraþjálfun fatlaðra barna þannig að færni þeirra aukist. Jafnframt varpa ég þeirri spurningu til hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því að reiðþjálfun verði viðurkennt meðferðarform við sjúkraþjálfun fatlaðra barna og njóti greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins með einhverjum hætti.

Að lokum vil ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að bregðast snöggt við og svara spurningu minni í dag.