131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Reiðþjálfun fyrir fötluð börn.

757. mál
[14:46]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Ég hef til að mynda heyrt vel látið af starfsemi Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra sem fer fram í Mosfellsdal. Þessi starfsemi er víða um land en mætti vera enn víðar og þetta mál er enn ein rökin á málflutningi okkar sem viljum bæta aðstöðu hestamanna. En auðvitað verður aðstaðan að vera til staðar.

Ég vil vekja athygli á því að engin reiðhöll er frá Skagafirði og austur um að Hellu og því er Norðausturkjördæmið afar illa sett. Ég vona því að reiðhöll verði reist sem fyrst á Akureyri til að byrja með og þá væri hægt að fara af stað með myndarlegt starf sem m.a. innihéldi reiðþjálfun fyrir fötluð börn. En það er að sjálfsögðu heppilegra þegar stunda á slíka starfsemi og slíka þjálfun að aðstæður séu eins og best verður á kosið.