131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Byggðastofnun.

714. mál
[15:26]

Drífa Hjartardóttir (S):

Frú forseti. Staða Byggðastofnunar hefur vissulega verið erfið síðustu missiri en þess má geta að upp á síðkastið hefur verið aukin eftirspurn aftur eftir lánsfé frá Byggðastofnun. Þegar Lánasjóður landbúnaðarins verður lagður niður, ef frumvarp sem liggur frammi verður samþykkt, er það mitt álit að vel komi til greina að Byggðastofnun breyti reglum sínum og fari að lána til landbúnaðar. Þá er sérstaklega verið að koma til móts við þá sem hafa áhyggjur af því að bankarnir vilji ekki lána á hin veikari svæði. Það hefur verið ákveðin verkaskipting á milli Lánasjóðs landbúnaðarins og Byggðastofnunar og þegar lánasjóðurinn verður lagður niður kemur aukið hlutverk fyrir Byggðastofnun á móti. Byggðastofnun hefur miklu hlutverki að gegna og það er mjög mikilvægt að staða hennar verði styrkt. Það er þörf fyrir hana áfram til að styrkja byggðir landsins.