131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Byggðastofnun.

714. mál
[15:30]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég tók eftir því í útlistun hæstv. ráðherra að hlutverk hins utanaðkomandi sérfræðings átti ekki að vera að skoða stöðu stofnunarinnar með tilliti til lögbundins hlutverks hennar, þ.e. ekki hvernig hún gæti best sinnt sínu lögbundna hlutverki, sem ég tel þó mjög mikilvægt. Það þótti mér athyglisvert, að markmiðið sé ekki að gera henni kleift að sinna því.

Það er auðvitað hárrétt ábending sem hv. þm. Kristján L. Möller kom fram með áðan, að Byggðastofnun þarf að geta keypt hlutafé og þannig auðveldað uppsetningu nýrra atvinnugreina á landsbyggðinni. En hvorki er hún fær um það né að veita styrki til uppbyggingar atvinnumála sem nokkru nemi, svo litlu fjármagni er úthlutað til stofnunarinnar.

Hv. þingmenn tala um að stofnunin þurfi að fá aukið hlutverk. Að mínu mati hefur hún yfrið nóg hlutverk, það er ekki vandamálið. Vandamálið er að hún hefur ekki aðstæður til að sinna þessu hlutverki almennilega og það er verkefni sem hæstv. ráðherra þarf að láta vinna og beita sér fyrir að henni verði gert kleift að gera.