131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Byggðastofnun.

714. mál
[15:32]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir ýmsar ráðleggingar sem hér hafa komið fram í sambandi við Byggðastofnun. Ég heyri að hv. þingmenn eru hlynntir því að þessi stofnun geti haldið áfram rekstri sínum og eflst frekar en hitt. Það sem ég er að segja með því að greina frá starfi sem er í gangi er að við teljum að sjálfsögðu mikilvægt í iðnaðarráðuneytinu að þessi stofnun hafi hlutverk og sinni því mikilvægasta á landsbyggðinni. Ef hún sinnir landsbyggðinni betur með því að breyta eitthvað þessari starfsemi verður að sjálfsögðu tekið til athugunar hvort þá sé rétt að gera þarna einhverjar breytingar. Það er ekki þannig með þessa stofnun frekar en aðrar að þær hafi verið settar á stofn óbreyttar til allrar framtíðar, við hljótum alltaf að þurfa að velta fyrir okkur nýjum möguleikum.

Hvað varðar það að kaupa hlutafé veit ég að það tókst, eða ég trúi því að mjög vel hafi tekist til um þær 350 milljónir sem stofnunin fékk til kaupa á hlutafé í sprotafyrirtækjum. Ég hlakka til að fylgjast með því eftir einhver missiri hvernig tekist hefur til og hversu mörg ný störf hafa orðið til í framhaldi af þeim hlutafjárkaupum. Það þýðir að það þarf að leggja stofnuninni til fjármagn af hálfu ríkisvaldsins til að hún sé megnug að fara út í slíkt þar sem tekjurnar hafa dregist mjög mikið saman út af því hvernig lánastarfsemin hefur verið að breytast. Ég tek undir það með hv. þingmanni sem talaði, stjórnarmanni í Byggðastofnun, að það hefur verið meiri aðsókn núna í lán aftur og það er ágætt.

Það er líka talað hér um styrki. Auðvitað væri gaman að geta gert ýmsa hluti en okkur eru nú einhver takmörk sett, almennt miðað við fjárlög. Aðalatriðið er að við (Forseti hringir.) förum í þessa vinnu og reynum að fara málefnalega yfir stöðuna og framtíðarhorfur.