131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Kannanir á viðhorfum til orkufrekrar stóriðju.

772. mál
[15:44]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég fagna í sjálfu sér þeim orðum hæstv. ráðherra að hún geti vel séð að önnur starfsemi geti blómgast og dafnað á Norðvesturlandi og Norðurlandi en bara álver. Ég fagna því líka að ráðherrann geri sér grein fyrir því að einhæf spurning um álver, sem Norðlendingar eru sem betur fer ekkert hrifnir af, segir ekki allt um hvernig atvinnulíf íbúarnir vilja sjá til framtíðar.

Varðandi orð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar eru menn farnir að rugla svo með stóriðju, menn eru farnir að kalla allt stórt stóriðju. Mennta- og rannsóknastarfsemi í Skagafirði útvegar miklu fleiri störf, störf fyrir hámenntaða einstaklinga, en einhver verksmiðja sem krefst mikillar raforku þannig að uppbygging í Skagafirði hvað þetta varðar, fiskvinnslan og starfsemin þar, er gríðarlega stór atvinnustaður. Það er gríðarlega mikilvægt þannig að menn geta kallað það í sjálfu sér stóriðju en það sem hér var verið að tala um voru álver og stórar vatnsaflsvirkjanir.

Ég bendi t.d. á að Blönduós hefur viljað líta á sig sem matvælabæ og óskað eftir að fá stuðning af hálfu ríkisvaldsins til að byggja sig upp sem slíkan og rannsóknastöð í matvælavinnslu. Ferðaþjónusta er vaxandi grein og ein stærsta atvinnugrein þjóðarinnar. Þetta svæði allt á gríðarlega möguleika í ferðaþjónustu. (Forseti hringir.) Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að fólk átti sig á því og laði fram sjónarmið íbúanna (Forseti hringir.) ef þörf er á en bindi sig ekki bara við einn þátt, álver.