131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Þjónustuskyldur í eldsneytisafgreiðslu.

773. mál
[15:52]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Til að fá gleggri upplýsingar um hvort veður og hamfarir séu alvarlegt vandamál við sölu eldsneytis hér á landi og eins hver skipting eldsneytissölu sé milli ökutækja annars vegar og annarrar notkunar hins vegar hafði ráðuneytið samband við öll olíufélögin. Þrátt fyrir skamman svarfrest sáu þrjú þeirra stærstu sér fært að veita umbeðnar upplýsingar.

Samkvæmt lauslegri áætlun mun sala eldsneytis frá bensínstöðvum til ökutækja nema rétt innan við einum þriðja af heildarnotkun eldsneytis í landinu. Afgreiðsla til skipa, flugvéla, verksmiðja og iðnaðar beint frá birgðastöðvum eða frá sérútbúnum bifreiðum mun því nema rúmum tveimur þriðju af heildarnotkun eldsneytis hér á landi. Bensín er eingöngu leyfilegt að selja af neðanjarðartönkum og því nánast eingöngu selt á bensínstöðvum. Gasolía er hins vegar einnig afgreidd á lausa ofanjarðartanka. Því er ljóst að þegar rafmagns- eða símasambandsleysi stöðvar tímabundið afgreiðslu eldsneytis á bensínstöðvum á almennt að vera hægt að hafa aðgang að gasolíu. Því verður ekki séð að tímabundið rafmagns- eða símasambandsleysi geti skapað neyðarástand, enda ætti ætíð að vera hægt að halda dísilbílum gangandi. Eru reyndar flestar bifreiðar björgunarsveita og slökkviliða dísilknúnar.

Aðspurð töldu olíufélögin sig ekki hafa orðið vör við að símasambands- eða rafmagnsleysi hefði skapað erfiðleika við sölu eldsneytis á starfsstöðvum þeirra á landsbyggðinni. Fram kom hjá þeim að unnt væri, ef neyðarástand skapaðist, að nálgast eldsneyti með handdælum þótt straums nyti ekki við. Þá töldu þau að birgðastýringu væri þannig háttað að ekki hefði komið til þess að vetrarveður reyndu á öryggisbirgðir eldsneytis. Í ljósi þessara upplýsinga er erfitt að koma auga á nauðsyn þess að gera ríkari kröfur til seljenda eldsneytis en seljenda annarrar vöru eða þjónustu hvað varðar uppsetningu og rekstur neyðarþjónustu. Hvaða rök væru þá fyrir því að undanskilja dagvöruverslun kröfum um að eiga ávallt á lager tilteknar lágmarksbirgðir svokallaðra nauðsynjavara eða að skylda grunnskóla til að bjóða upp á kennslu hvernig sem viðrar? Mér er til efs að neytendur væru stjórnvöldum þakklátir fyrir slíkar kvaðir sem óhjákvæmilega mundu hafa í för með sér hækkun vöruverðs og lakari lífskjör af þeim sökum.

Á undanförnum árum hafa kröfur til reksturs bensínstöðva verið auknar, m.a. til búnaðar og mengunarvarna. Á síðasta þingi var lögfest hlutlæg skaðabótaábyrgð, m.a. vegna bensínstöðva, og við meðferð hvers máls munu olíufélögin hafa lýst þeim áhyggjum að lagasetningin mundi hafa neikvæð áhrif á litlar bensínstöðvar í dreifbýli. Hefur þeirrar þróunar orðið vart í nágrannalöndum okkar að útsölustöðum eldsneytis hefur fækkað stórlega og ekki er ástæða til að ætla annað en þróunin verði sú sama hérlendis. Tel ég ekki ástæðu til að hraða þeirri þróun með setningu íþyngjandi reglna umfram það sem nauðsynlegt er.