131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Þjónustuskyldur í eldsneytisafgreiðslu.

773. mál
[15:56]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta var hálffurðulegur málflutningur. Hæstv. viðskiptaráðherra dró inn matvöruverslanir og grunnskóla og fór að bera það saman við bensínstöðvar úti á landi. Ég átta mig ekki alveg á þessu.

Bensínstöðvar eða stöðvar sem selja bensín og gasolíu eru að selja eldsneyti á farartæki þannig að fólk komist leiðar sinnar. Ég hef rekið mig á það á ferðum mínum um landið að á sumum stöðum er erfitt að nálgast olíu eða bensín. Mér finnst alveg sjálfsagt mál að stjórnvöld leggi þær kvaðir á olíufélögin, sem hafa orðið uppvís að því að arðræna þjóðina um margra áratuga skeið með ólöglegu verðsamráði og eru með einokunaraðstöðu í olíusölu hér á landi, að þau sjái til þess að þegnarnir geti nálgast eldsneyti á farartæki sín þegar á þarf að halda. Það er mjög skaðlegt fyrir litla staði að geta ekki tryggt eldsneytissölu og veldur því að þeir fá á sig mjög neikvæðan stimpil og er kannski ekki á bætandi af mörgum ástæðum sem of langt mál er að fara út í hér. Það er mjög slæmt fyrir ímynd þessara staða þegar til að mynda ferðamenn lenda í stórkostlegum vandræðum með jafneinfaldan hlut og að kaupa sér eldsneyti á bíla sína. Þetta verður (Forseti hringir.) einfaldlega að laga.