131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Tafir á vegaframkvæmdum.

736. mál
[17:18]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Þó að miklum fjárhæðum sé varið til vegaframkvæmda árlega er það þó svo að á mörgum svæðum landsins er mjög langt í land með að ástand vega sé viðunandi miðað við þær kröfur sem við gerum í dag, bæði hvað varðar öryggi á vegum, gerð vega með tilliti til vetrarfærðar og burðargetu þeirra.

Sem dæmi er nærtækt að nefna veginn milli Hólmavíkur og Brúar í Hrútafirði en á þeim vegarkafla eru 14 einbreiðar brýr, 13 blindhæðir og þrír staðir þar sem árlega verða umferðarslys og fjöldi óhappa. Vegasamgöngur á Vestfjörðum almennt eru langt frá því að geta talist viðunandi, sérstaklega ef tillit er tekið til hins fyrirsjáanlega stóraukna álags sem verður á vegunum á næstu árum vegna þess að þungaflutningar eru nær allir að flytjast á vegakerfið og að litið er til ferðamennsku sem vaxtarsprota í fábreyttu atvinnulífi.

Það hefur vakið athygli mína að umtalsverð fjárhæð er árlega afgangs af framkvæmdafé Vegagerðarinnar og virðist fara hækkandi frá ári til árs. Með tilliti til hinna miklu verkefna sem bíða í samgöngumálum, ekki aðeins á Vestfjörðum heldur einnig á öðrum landsvæðum, t.d. á norðausturhorni landsins, svíður að sjá að ekki virðist framkvæmt fyrir þá upphæð sem heimild er fyrir í fjárlögum.

Ég spyr því hæstv. samgönguráðherra:

Eru dæmi um að vegaframkvæmdir hafi dregist fram yfir áramót vegna þess að undirbúningi framkvæmda hefur ekki verið lokið í tæka tíð? Ef svarið er jákvætt, hvaða helstu framkvæmdir er um að ræða og hvað tefur helst fyrir í undirbúningsvinnunni?