131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Tafir á vegaframkvæmdum.

736. mál
[17:27]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra greinargóð svör. Tilefni þessarar fyrirspurnar er að ég tók eftir því að af framkvæmdafé Vegagerðarinnar á síðasta ári voru rúmir 3 milljarðar í afgang sem ekki nýttust og mér sýndist sem sú upphæð færi hækkandi ár frá ári. Ég hef reyndar lagt fram skriflega fyrirspurn til hæstv. ráðherra um það efni þannig að ég mun þá fljótlega sjá hver þróunin er.

Það er hins vegar svo, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að þegar maður horfir upp á þessa þróun hlýtur maður að velta fyrir sér hvort ekki sé hægt að breyta málum á einhvern hátt þannig að við getum nýtt það fé sem við höfum heimild til að nýta árlega, jafnmikið og við eigum eftir ógert í vegaframkvæmdum á Íslandi. Það eru auðvitað, eins og hæstv. ráðherra sagði, ýmis dæmi sem tefja fyrir, nýjungar í lögum eins og t.d. umhverfismat. Þá er spurningin hvort við þurfum ekki að breyta vinnuferlinu á einhvern þann hátt að við getum komist hjá því að sitja uppi með vannýtt fé ár eftir ár. Oft er það, held ég, þannig að tafir eru fyrirsjáanlegar, við vitum nokkurn veginn oft og tíðum hvort við erum að skipuleggja á svæðum þar sem er ágreiningur eða deildar meiningar um vegarlegu eða yfirleitt hvort það eigi að vera vegur. Við stöndum t.d. væntanlega frammi fyrir því á Vestfjörðum bráðlega.

Eins og ráðherra hæstv. sagði eru margar framkvæmdir þannig að þeim er áfangaskipt og þá er spurningin hvort ekki sé hægt að flytja fé á milli (Forseti hringir.) framkvæmda til að hægt sé að nýta það upp.