131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Framkvæmd vegáætlunar.

737. mál
[17:32]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Eins og fram kom í fyrirspurn minni áðan hafa vaknað hjá mér spurningar um nýtingu fjár á vegáætlun. Vegáætlun er gerð til margra ára í senn en eftir sem áður virðast vera einhverjir hnökrar á undirbúningi framkvæmda þegar til kastanna kemur og framkvæmdir tefjast því oft og iðulega.

Nú geta auðvitað legið ástæður til þess að framkvæmdir tefjist án þess að Vegagerðin fái nokkuð við það ráðið, eins og t.d. smíði brúar yfir Gönguskarðsá við Sauðárkrók, sem hæstv. ráðherra minntist á áðan. Þar hefur meiri hluti sjálfstæðismanna og vinstri grænna ekki getað komið sér saman um hvaða legu innkeyrsla í bæinn á að hafa og hafa vísað málinu sennilega fimm sinnum aftur til skipulags- og samgöngunefndar. En það er sennilega og vonandi einstakt stjórnleysi í einu bæjarfélagi.

Það verður hins vegar að velta því fyrir sér hvort Vegagerðin er að einhverju leyti undirmönnuð, hvort ný lög, t.d. um umhverfismat, geri það að verkum að breyta þurfi vinnulagi til þess að fjármagn geti nýst sem mest á því ári sem heimild fæst til að nýta það, t.d. með því að hafa tilbúin verk á nokkurs konar varaframkvæmdalista eða hvað annað sem hægt er að taka til bragðs.

Ég spyr því hæstv. samgönguráðherra:

1. Hvaða kröfur eru gerðar til stöðu undirbúnings vegaframkvæmda þegar fjárheimilda er leitað?

2. Eru verk á vegáætlun þar sem undirbúningi er lokið og verkin tilbúin til útboðs án þess að fjárheimild liggi fyrir?

3. Hefur komið til álita að breyta forgangsröðun verkefna þegar verk tefjast?

4. Hvað tekur undirbúningur fyrir nýframkvæmdir hjá Vegagerðinni að jafnaði langan tíma, annars vegar fyrir lagningu vega, hins vegar brúarsmíð?