131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Framkvæmd vegáætlunar.

737. mál
[17:38]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Manni finnst eiginlega undarlegt að þegar verk tefjast skuli ekki vera farið í önnur verk sem liggur fyrir að verður að vinna í framhaldinu.

Ég ætla að taka sem dæmi aftur brúna yfir Gönguskarðsá við Sauðárkrók. Þetta þref og þjark er búið að standa yfir allt þetta kjörtímabil. Búið var að taka ákvörðun á síðasta kjörtímabili um legu brúarinnar eins og hún mun væntanlega liggja eftir þær mörgu hringferðir sem við vorum að lýsa áðan.

En það er ekki einungis þetta verk sem er eftir til að þessi mikla vegabót sem Þverárfjallsvegur er nýtist að fullu, heldur á líka eftir að ljúka hluta vegarins, þ.e. eftir að komið er niður í Gönguskörð og til Sauðárkróks. Þar er vegurinn enn þá niðurgrafinn og snjóar oft í hann fyrir utan að þarna er aurbleyta og hann hefur reynst hættulegur á sumrin og auk þess stórskemmt bíla. Þess vegna fyndist manni þetta alveg dæmigerð framkvæmd sem ætti að fara í í staðinn fyrir að bíða alltaf eftir að pólitíkusarnir á Sauðárkróki geti komið sér saman.

Það er skoðun mín að það ætti að reyna taka til endurskoðunar vinnulagið við framkvæmdir hjá Vegagerðinni með það í huga að hafa ætíð til reiðu verkefni sem hægt er að fara í ef verk tefjast af fyrirsjáanlegum eða ófyrirsjáanlegum orsökum.