131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Æskulýðsmál.

782. mál
[18:01]

Fyrirspyrjandi (Una María Óskarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Æskulýðsmál eru málaflokkur sem því miður hefur ekki hlotið mikla umræðu á hinu háa Alþingi. Lög um æskulýðsmál eru frá árinu 1970 og því orðin 35 ára gömul. Það segir sig sjálft að þessi lagabálkur er orðinn úreltur og full þörf er á að endurskoða hann. Því vil ég beina nokkrum spurningum um málið til hæstv. menntamálaráðherra.

Hvað líður endurskoðun nýrra æskulýðslaga sem nefnd um endurskoðun þeirra átti að skila til ráðherra 1. september 2004? Enn fremur leikur mér forvitni á að vita hvert hlutverk æskulýðsráðs eigi að vera í framtíðinni og hvernig velja eigi í það ráð. Eins og menn vita er unnið gott æskulýðsstarf hér á landi. Nefna má starf frjálsra félagasamtaka eins og ungmennafélaganna í landinu, öflugt skátastarf, tómstundastarf, félagsmiðstöðvar sem starfræktar eru í sveitarfélögum og svo mætti áfram telja. Þessir aðilar hafa lagt metnað sinn í að byggja upp öflugt æskulýðsstarf og fylgja takti tímans án þess að grundvallarreglur um uppeldi og góð samskipti séu fyrir borð bornar. Framboð, framþróun og fjölbreytni í æskulýðsstarfi eru ekki síður mikilvæg en framboð, framþróun og fjölbreytni í íþróttastarfi.

Hæstv. forseti. Þegar unnið er að endurbótum laga um æskulýðsmál skyldi maður ætla að heppilegast væri að leita liðsinnis, skoðana og reynslu þeirra aðila sem sinna því mikilvæga æskulýðsstarfi sem fram fer hér á landi. Því vil ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvaða samvinna hafi verið höfð við sveitarfélögin í landinu við endurskoðun laganna. Þá vil ég einnig spyrja um starf æskulýðssjóðs og vil fá að vita hver skipar stjórn sjóðsins og eftir hvaða vinnureglum er farið við þá skipun. Einnig vekur það eftirtekt að eftir því sem ég best fæ séð hafa úthlutanir úr æskulýðssjóði til kristilegs starfs verið 30 af 57 eða 52,6% úthlutana sjóðsins frá því að hann var stofnaður 2004. Hvers vegna er það svo?