131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Æskulýðsmál.

782. mál
[18:08]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Mismæli hæstv. ráðherra í upphafi eru eiginlega talandi dæmi um hve íþróttir eru ofarlega í huga fólks þegar máli er vikið að tómstundum ungmenna. Ég ætla ekki að kasta rýrð á íþróttastarf, ég hef stutt það dyggilega og staðið að sjálfboðaliðastarfi og geri enn, en sem kennari fyrr á árum varð ég auðvitað mjög oft vör við að íþróttir höfða ekki til allra. Það eru ekki allir sem geta stundað íþróttir og hafa ekki áhuga á þeim og þess vegna vil ég nota þetta tækifæri til að leggja áherslu á hversu mikilvægt það er að veita markvissan stuðning til fjölbreytts annars konar tómstundastarfs því að við vitum það allar sem hér erum hversu tómstundir eru mikilvægar fyrir heilbrigði og farsælt uppeldi barna.