131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Æskulýðsmál.

782. mál
[18:09]

Fyrirspyrjandi (Una María Óskarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Hún upplýsti áðan að nefnd sú sem ætlað var að endurskoða æskulýðslög hafi skilað frumvarpi ásamt greinargerð.

Ástæður fyrir spurningum mínum eru m.a. þær að ég hef verið að reyna að spyrjast fyrir um frumvarpið og þessa endurskoðun. Eftir því sem ég best veit hafa þeir aðilar sem sitja í æskulýðsráði hvorki upplýsingar um hvert efni frumvarpsins er né greinargerðar með því og þess vegna tel ég mjög mikilvægt að ráðherrann upplýsi mjög fljótlega hvernig þetta frumvarp er úr garði gert. Hún sagði áðan að frumvarpið væri breytt og ég spurði þeirrar spurningar hvaða samvinna hefði verið höfð við sveitarfélögin um þetta mál. Ég tel að sveitarfélögin og fulltrúar þeirra þurfi að vita hvernig ætlunin er að breyta æskulýðslögum vegna þess að starfið í sveitarfélögunum í þessum geira er mjög umfangsmikið.

Varðandi fjórðu spurninguna sem ég spurði, um æskulýðssjóðinn, þá kemur það fram á vef ráðuneytisins að í stjórn æskulýðssjóðs sitji þeir sem eru í æskulýðsráði. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef skipa þrír aðilar þessa stjórn og það er ekki samkvæmt þeim reglum sem gilda eiga um stjórn sjóðsins. Þeir gera tillögur til ráðherra hverjir fá úthlutað úr sjóðnum.

Ráðherra upplýsti að umsóknir vegna trúarlegs starfs væru mjög margar í sjóðinn. Ég vil aftur á móti segja að þó að umsóknir vegna trúarlegs starfs séu margar í sjóðinn finnst mér skipta mjög miklu máli að úthlutanir úr honum nái til breiðari hóps umsækjenda og vil því með þessum orðum skora á ráðherra að upplýsa sveitarfélög og alla þá aðila sem starfa í æskulýðsgeiranum um þetta frumvarp. Einnig mælist ég til þess við hæstv. ráðherra að úthlutanir úr æskulýðssjóði nái til breiðari hóps í framtíðinni.